Viðskipti innlent

Lántaka Glitnis hjá Seðlabanka Evrópu á ekkert skylt við lögbrot

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis, segir að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sé á villigötum þegar hann segi að hugsanlega hafi Glitnir framið lögbrot þegar bankinn lagði lán bankans til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að veði fyrir láni hjá Evrópska Seðlabankanum.

Ummælin lét Jón falla í fréttum Stöðvar 2 á dögunum og krafðist ráðherrann svara frá fyrrum stjórnendum Glitnis. „Fullyrðing ráðherrans um hugsanlegt lögbrot er á misskilningi byggð," segir Þorsteinn Már. Hann bendir á að Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sé heimilt að taka lán beint hjá erlendum aðilum og hafi þau gert það í tugi ára. „Norskir bankar hafa í fjöldamörg ár, svo dæmi sé tekið, fjármagnað nýsmíðar íslenskra fiskiskipa í Noregi með fyrsta veðrétti í viðkomandi skipum."

Þá segir Þorsteinn að á sama hátt sé íslenskum lánastofnunum heimilt að setja kröfur sínar á hendur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að veði til tryggingar skuldum sínum við erlenda aðila. „Komi til þess að erlendir aðilar þurfi að ganga að veðum í íslenskum fiskiskipum er þeim hinsvegar óheimilt að gera þau út og þurfa að selja þau innan tiltekins tíma."

„Ríkisstjórn Íslands hefur á síðustu mánuðum staðið í viðræðum við kröfuhafa um hugsanlegt eignarhald þeirra á íslensku bönkunum," segir Þorsteinn Már ennfremur. „Verði það niðurstaðan að Kaupþing og Íslandsbanki verði að hluta til í eigu erlendra aðila þá verður það löglegt að viðkomandi bankar fjármagni íslenskan sjávarútveg, þrátt fyrir erlent eignarhald á þeim."

Að lokum segir Þorsteinn að það sé Íslensku atvinnulífi nú mjög mikilvægt að eiga aðgang að erlendu lánsfé. „Það er sannfæring mín að þegar sjávarútvegsráðherra hefur kynnt sér málið til hlítar mun renna upp fyrir honum að viðskipti Glitnis við Seðlabanka Evrópu eiga ekkert skylt við lögbrot."






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×