Viðskipti innlent

Millistjórnendur með allt að 900 þúsund í mánaðarlaun

Millistjórnendur hjá ríkisbönkunum fá allt að 900 þúsund krónur í mánaðarlaun. Laun framkvæmdastjóra bankanna eru á bilinu 1-1,4 milljónir.

Við yfirtöku ríkisins á bönkunum misstu fjölmargir vinnuna. Og þeir sem héldu vinnunni voru lækkaðir talsvert í launum, en laun bankastarfsmanna lækkuðu um á bilinu 5-65%.

Við skulum nú bera saman mánaðarlaun hjá bönkunum og laun hjá ríkisbönkunum þremur. Tölurnar eru byggðar á heimildum fréttastofu en formleg gögn liggja ekki fyrir.

Meðallaun gjaldkera voru og eru enn um 275 þúsund krónur á mánuði. Þjónustufulltrúar og ráðgjafar í útibúum eru með um 300-350 þúsund krónur á mánuði og er það svipað og hjá gömlu bönkunum.

Hjá Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum störfuðu mikið af sérfræðingum, og langskólagengnu fólki. Það sama á við um hjá ríkisbönkunum þremur.

Sérfræðingar sem áður voru með um og yfir eina milljón í laun á mánuði eru nú með á bilinu 550-700 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Algeng laun millistjórnenda hjá bönkunum voru um 1,2-1,5 milljón á mánuði en sumir millistjórnendur voru með allt að 1,7 milljón á mánuði. Laun millistjórnenda hjá ríkisbönkunum er nú um 700-900 þúsund krónur.

Framkvæmdastjórar gömlu bankanna voru með allt að 2,5-3 milljónir í föst laun á mánuði. Laun þeirra eru nú á bilinu 1-1,4 milljónir á mánuði.

Þess ber að geta að meðallaun hjá ríkisbönkunum eru væntanlega rétt undir hálfri milljón.

Laun forsætisráðherra eru 935 þúsund krónur á mánuði en í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir að stefnt sé að því að engin laun séu hærri en laun forsætisráðherra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×