Viðskipti innlent

Skilanefnd Landsbankans fundar með kröfuhöfum

Ingimar Karl Helgason skrifar

Bretar og Hollendingar fylgjast náið með heimtum úr þrotabúi Gamla Landsbankans, en eignirnar fara allar upp í Icesave reikningana. Hvorir um sig eiga fulltrúa á kröfuhafafundi skilanefndar sem haldinn er í Lundúnum í dag.

Heildareignir Landsbankans námu um mitt ár í fyrra hátt í 4.000 milljörðum króna, en síðan hrundi allt. Samkvæmt yfirliti frá skilanefnd bankans frá í sumar eru eignirnar metnar á 1.100 milljarða. Þar inni eru hátt í 300 milljarðar frá Nýja Landsbankanum.

Innistæðukröfur reikningseigenda Icesave eru um 1.300 milljarðar. Vonast er til þess að sem mest innheimtist af eignum bankans upp í þetta; restin lendir á íslenskum skattgreiðendum, jafnvel ófæddum.

Í reynd eru bresk og hollensk stjórnvöld þannig stærstu kröfuhafarnir í þrotabú gamla Landsbankans.

Ríkin fylgjast enda vel með endurheimtum af eigum bankans. Lokaður fundur með kröfuhöfum er haldinn í Lundúnum í dag. Þar eiga Hollendingar og Bretar fulltrúa.

Samkvæmt nýjasta yfirliti skilanefndarinnar á Nýi bankinn að láta þeim gamla í té 284 milljarða króna. Þetta er háð óvissu, það fer eftir virði innlendra viðskipta sem lentu í nýja bankanum, húsnæðisveðum hér á landi og fleiru líkt og málverkum í eigu bankans, sem sum eru þjóðargersemar. Hollendingum og Bretum þykir mikilvægt að sem best verð fáist fyrir þessar eignir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×