Viðskipti innlent

Telur endurreisn bankakerfisins verða lokið í maí

Mats Josefsson formaður nefndar ríkisstjórnarinnar um endurreisn fjármálakerfisins telur að endurreisn íslenska bankakerfisins verði lokið fyrir maílok.

Þetta kemur fram í viðtali vefsíðunnar e24.no við Josefsson. „Okkar fyrsta verkefni er að koma daglegri greiðslumiðlun bankanna í lag og að opna fyrir lánamarkaðinn að nýju," segir hann.

Í sömu umfjöllun er haft eftir Friðriki Má Baldurssyni prófessor við Háskóla Reykjavíkur að endurreisn bankakerfisins hafi tekið of langan tíma og að menn séu tvo mánuði á eftir áætlunum um slíkt. Hann reiknar þó með að starfinu ljúki innan eins til tveggja mánaða.

Josefsson segir að unnið sé að því að þróa eignir og skuldir gömlu bankanna í samræmi við alþjóðleg lög og reglur. „Gegnsæi og réttlæti eru mikilvægast og það er mjög áríðandi að ná samkomulagi við þá sem lánað hafa íslensku bönkunum," segir Josefsson.

Aðspurður um hvernig stemmingin sé meðal erlendu kröfuhafana í bankana segir Josefsson að hún sé mun betri en fyrir mánuði síðan.

„Erlendu kröfuhafarnir gagnrýndu með réttu takmarkaða upplýsingagjöf til þeirra. En þetta hefur verið leiðrétt," segir Josefsson. „Allir eru sammála um að íslenskt efnahagslíf mun ekki komast í gang að nýju án þess að endurreisn bankakerfisins ljúki."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×