Viðskipti innlent

ÍLS tapaði tæpum 7 milljörðum á bankahruninu í haust

Í ársreikningi Íbúðalánasjóðs (ÍLS) fyrir árið 2008 kemur fram að tap af rekstri sjóðsins nam 6,9 milljörðum króna. Eins og fram kom í tilkynningu Íbúðalánasjóðs í nóvember sl. varð hann fyrir verulegum skakkaföllum vegna falls þriggja stærstu banka landsins.

Í tilkynningu segir að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé 4,6% og er það reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%.

Í árslok námu útlán 680 milljörðum kr. og hækkuðu um 117 milljarða kr. á árinu. Lántaka sjóðsins nam 708,5 milljörðum kr. og hækkaði um 130 milljörðum kr. á árinu.

Íbúðalánasjóður fór ekki varhluta af þeirri kreppu á fjármagnsmörkuðum sem ríkti á síðustu mánuðum ársins 2008. Sjóðurinn átti 16,6 milljarða kr. kröfu á viðskiptabankana við fall þeirra í október vegna skuldabréfa og afleiðusamninga. Sjóðurinn skuldaði þeim 5,3 milljarða kr. vegna afleiðusamninga og íbúðabréfa á sama tíma.

Í uppgjöri sjóðsins er gert ráð fyrir því að sjóðurinn eigi rétt á skuldajöfnun. Færð hefur verið niðurfærsla að fjárhæð 7,9 milljarða kr. til að mæta áætluðu tapi sjóðsins. Óvissa er um uppgjör afleiðusamninga og heimild sjóðsins til skuldajöfnunar. Tap sjóðsins getur því orðið annað þegar endanlegt uppgjör fer fram.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×