Viðskipti innlent

Seðlabankinn leyfir gengi krónunnar að gossa niður

„Ef tekið er mið af því hversu mikið krónan hefur veikst frá 11. mars í lítilli veltu (1,7 milljarðar kr. á millibankamarkaði á tímabilinu) er það sterk vísbending um að Seðlabankinn hafi haldið sig til hlés á gjaldeyrismarkaði undanfarnar vikur. Ef sú er raunin er það athyglisvert í ljósi þeirrar miklu áherslu sem bankinn leggur á gengisstöðugleika."

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka um gengislækkunarhrinu sem staðið hefur nær óslitið frá 11. mars s.l. Krónan hefur veikst um nálega hálft prósent gagnvart evru það sem af er morgni og virðist lítið lát á hrinunni.

Í gengislækkun krónu undanfarna 19 daga hefur raunar öll styrking þeirra 7 vikna sem á undan fóru gengið til baka. Gengi evru er nú 161,7 kr. en var 141,3 kr. í dagslok 11. mars.

Þetta er Seðlabankanum væntanlega nokkurt áhyggjuefni, að sögn greiningarinnar, enda lagði peningastefnunefnd bankans á það áherslu við síðustu vaxtaákvörðun að mikilvægt væri að halda gengi krónunnar stöðugu í ljósi þess hversu viðkvæmur efnahagur heimila, fyrirtækja og banka væri gagnvart gengissveiflum.

Gengisstöðugleiki er þannig yfirlýst markmið peningastefnunnar til skemmri tíma þótt verðbólgumarkmiðið sé eftir sem áður langtímamarkmið hennar.

Í heild nam velta á millibankamarkaði 3,8 milljörðum króna í janúar og tæpum 4 milljörðum kr. í febrúar. Seðlabankinn stóð að baki ríflega þriðjungi þessarar veltu í hvorum mánuði fyrir sig og alls nam sala hans á gjaldeyri í mánuðum tveimur 2,9 miljörðum kr.

Í ljósi 17% styrkingar krónu gagnvart evru frá áramótum til febrúarloka og lítillar veltu á markaði má gera því skóna að inngrip bankans hafi átt töluverðan þátt í gengisþróun á tímabilinu. Raunar má segja að slík gjaldeyrishöft, og þar með útilokun spákaupmanna frá markaði, séu forsenda fyrir því að inngrip á gjaldeyrismarkaði hafi veruleg áhrif.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×