Viðskipti innlent

Pistill: Þorvaldur líklega næsti seðlabankastjóri

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Áður en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnti þriggja manna nefnd sína sem á að leggja mat á hæfni umsækjenda um embætti seðlabankastjóra var talið líklegast að Már Guðmundsson hagfræðingur hjá BIS bankanum í Basel ætti stöðuna örugga. Nú eru menn hinsvegar farnir að veðja á að Þorvaldur Gylfason prófessor verði ráðinn.

Þeir sem Fréttastofan hefur rætt við um málið og spáð hafa í spilin eru sammála um að Arnór Sighvatsson eigi stöðu aðstoðarseðlabankastjóra vísa. Og það dregur töluvert úr líkunum á því að Már verði ráðinn seðlabankastjóri. Því eins og einn viðmælenda Fréttastofu orðar það yrði það þá í fyrsta skipti í veraldarsögunni að fyrrverandi trotskyisti og maóisti fara saman með þessi embætti. Már var formaður Fylkingarinnar á sínum tíma og Arnór tilheyrði EIK eða Einingarsamtökum kommúnista.

Jónas Haralz er formaður nefndar forsætisráðherra og sennilega hugnast honum ekki að tveir fyrrverandi kommúnistar fari með svo valdamikil embætti sem seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri. Jónas hefur þar að auki á undanförnum mánuðum lýst þeirri skoðun sinni að Íslandi eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og vitað er að Þorvaldur er einlægur ESB sinni.

Þá er Guðmundur Magnússon fyrrverandi rektor Háskóla Íslands einn nefndarmanna. Guðmundur mun örugglega vilja veg Þorvaldar sem mestan enda er Þorvaldur náinn samstarfsmaður og vinur Guðmundar í háskólaheiminum.

Menn treysta sér minna til að spá um afstöðu Láru V. Júlíusdóttur hrl. sem er tilnefnd af bankaráði Seðlabankans í nefndina. Hugsanlega mun hún vilja veg einu konunnar sem sækir um, Rannveigar Sigurðardóttur sem mestan. Rannveig á það sameignlegt með Má og Arnóri að hafa aðhyllist kommúnismann í æsku en hún er fyrrverandi stalínisti eins og einn viðmælenda Fréttastofu segir og bendir á að hún hafi tilheyrt KFMLR í Gautaborg í Svíþjóð á sínum tíma.

Kannski hefur Már verið þeirra róttækastur en hann var formaður Fylkingarinnar þegar sú hreyfing gekk inn í Alþýðubandalagið gamla. Sagði Már við það tækifæri í viðtali við Þjóðviljann að með samrunanum vildi hann koma á fót stórum og öflugum verkamannaflokki á Íslandi. Og til er saga af því að Már hafi verið rekinn af ársfundi Fjórða alþjóðasambands kommúnista í París á áttunda áratugnum fyrir að vera „ofurróttækur".

Það er hinsvegar talið Má mjög til tekna að hann hefur starfað um árabil við BIS bankann í Basel og hefur því væntanlega mikil tengsl við bankamenn á alþjóðavísu. Slíkt vegur þungt þegar kemur að vali seðlabankastjóra enda helsta verkefni hans á næstu árum að reyna að endurheimta traust á íslenskum fjármálaheimi meðal annarra þjóða. Traust sem er með öllu horfið í augnablikinu.

Einn viðmælenda Fréttastofu benti þó á að Þorvaldur Gylfason sé ekki síður vel kynntur á alþjóðavettvangi í gegnum störf sín í Háskóla Íslands. Og hann hafi starfað sem hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum 1976 til 1981. Þá hafi Þorvaldur starfað að rannsóknum, ráðgjöf og kennslu víða um lönd, einkum á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu og einnig Evrópusambandsins, Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna.

En hugsanlega mun þessi nefnd ráða engu um hver verður skipaður í þessar tvær æðstu stöður Seðlabankans. Því í tilkynningu forsætisráðherra um skipun nefndarinnar segir: „Umsagnir nefndarinnar eru ekki bindandi við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×