Viðskipti innlent

Starfsmenn Straums í Danmörku bíða skipana frá FME

Starfsmenn Straums í Danmörku sitja nú með hendur í skauti og bíða eftir fyrirskipunum frá skilanefnd Fjármálaeftirlitsins (FME) á Íslandi.

Oscar Crohn forstjóri Straums í Danmörku segir í samtali við börsen.dk að í augnablikinu sé engin starfsemi í gangi í bankanum ytra. „Við höfum ekki leyfi til að gera nokkuð sem helst og bíðum eftir fyrirmælum. Þá má segja að við séum í biðstöðu," segir Crohn.

Crohn segir að hann geti ekkert tjá sig um framtíð bankans í Danmörku né hvað verði um starfsmenn hans. „Þetta er vandamál. Við vitum ekkert. Nú eru það íslensk stjórnvöld sem ráða yfir bankanum og þau verða að gefa okkur fyrirmæli um það sem gera skal," segir Crohn.

Fram kemur í máli Crohn að allar innistæður í Straumi í Danmörku séu tryggðar af bankatryggingarsjóði Dana. Jafnframt muni bankinn aðstoða þá sem hann hefur veitt lán eftir bestu getu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×