Viðskipti innlent

Heildarútlán Landsbankans í London nema 731 milljarði

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Heildarútlán Landsbankans í London nema rúmum sjö hundruð þrjátíu og einum milljarði íslenskra króna, en þau eiga að ganga upp skuldbindingar ríkisins vegna Icesave. Líklegt er að nokkur afföll verði á útlánunum. Útlán bankans til íslensku útrásarinnar námu um hundrað og þrjátíu milljörðum íslenskra króna en stærstu hluti þess var lánaður til Novator Pharma, sem er í eigu Björgólfs Thors, og fyrirtækja tengdum Baugi.

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að eignir Landsbankans í Lundúnum komi til með að ganga upp í skuldir íslenska ríkisins vegna Icesave innistæðna. Sú upphæð sem íslenska ríkið ábyrgist vegna þeirra nemur 654 milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu nemur heildarupphæð útlánasafns bankans í London rúmum 731 milljarði íslenskra króna. Samkvæmt þessu er verðmæti lánasafnsins um 12% meira en skuldbinding ríkisins og ætti því að duga fyrir Icesave skuldinni og rúmlega það.

Í eðlilegu árferði mætti áætla að fullt verð fengist fyrir þessar eignir bankans en lánsfjárkrísan sem staðið hefur yfir síðan á haustmánuðum 2007 setur strik í reikninginn. Bankamaður, sem starfað hefur á fjármálamörkuðum í New York, Asíu og Lundúnum sagði í samtali við fréttastofu að raunhæft væri að áætla að um 70% af heildarverðmæti útlánasafnsins fengist tilbaka.

Miðað við þá útreikninga ætti Landsbankinn að fá um 512 milljarða, einvörðungu fyrir lánasafn bankans í Lundúnum.

Af þeim 730 milljörðum sem bankinn lánaði frá Lundúnum námu útlán til íslensku útrásarinnar rúmum 130 milljörðum eða rétt tæpum 18% af heildarútlánum útibúsins Ef litið er á lánasafn bankans má t.a.m. sjá að Novator Pharma, betur þekkt sem Actavis, er stærsti einstaki lántaki bankans.

Það félag er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, fyrrum eigenda bankans í gegnum fjárfestingafélag hans, Novator. Útistandandi skuld Novator Pharma við Landsbankann nemur um 41 og hálfum milljarði.

Þá nema heildarskuldbindingar Baugs og tengdra fyrirtækja um 58 milljörðum króna eða 8% af útlánasafninu. Skilanefnd Landsbankans hefur nú tekið yfir þau veð og þar með þurrkað lánin út. Samtals nema því skuldbindingar Novator Pharma og félaga í eigu Baugs, hjá Landsbankanum, um 100 milljörðum íslenskra króna.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×