Viðskipti innlent

Úrræðum beitt gegn fyrirtækjum sem skila ekki ársreikningum

Ársreikningaskrá undirbýr kæru til skattrannsóknarstjóra vegna málefna BM Vallár og annarra félaga sem ekki hafa skilað ársreikningum til opinberrar birtingar svo árum skipti. Á sama tíma er BM Vallá að hefja mál gegn ársreikningaskrá.

Í lögum um ársreikninga, sem ársreikningaskrá starfar eftir, segir að hlutafélögum og einkahlutafélögum sé skylt að leggja fram ársreikninga sína til opinberrar birtingar. Undanfarin ár hafa mörg félög komist upp með að fylgja reglunum ekki eftir.

Í alvarlegustu tilvikunum verður öðrum úrræðum beitt. Heimildir fréttastofu herma að í undirbúningi sé kæra til skattrannsóknarstjóra vegna málefna nokkurra félaga, en meðal þeirra er BM Vallá. Ef ársreikningi er ekki skilað þrjú ár í röð er hægt að grípa til enn grófara úrræðis sem er að slíta félaginu, en viðskiptaráðuneytið hefur heimild til þess. Með því er átt við ábyrgð eigenda á skuldbindingum félagsins verði gerð ótakmörkuð.

BM Vallá hefur aldrei skilað ársreikningi til ársreikningaskrár.

Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður félagsins, sagði í samtali við fréttastofu að BM Vallá hefði einu sinni unnið dómsmál gegn ársreikningaskrá vegna þessa og nú sé verið að hefja nýtt mál. Forsvarsmenn BM Vallá telji að embættisfærsla starfsmanna ársreikningaskrár sé ólögmæt og að stundum seilist þeir út fyrir embættistakmörk sín.

Vert er að taka fram að BM Vallá hefur staðið í skilum með ársreikninga til skattayfirvalda en Víglundur segir að opinber birting hjá ársreikningaskrá sé bara til þess fallin að keppinautar muni hnýsast í þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×