Viðskipti innlent

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur sjálfstæðan rekstur

Almenni lífeyrissjóðurinn mun hefja sjálfstæðan rekstur þann 1. maí 2009 en sjóðurinn var áður með rekstrarsamning við Íslandsbanka hf.

Í tilkynningu segir að Almenni lífeyrissjóðurinn sé fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins. Sjóðurinn samanstendur af sjö lífeyrissjóðum sem á undanförnum árum hafa sameinast. Þeir lífeyrissjóðir sem hafa sameinast í Almenna lífeyrissjóðinn eru ALVÍB (Almennur lífeyrissjóður VÍB), Lífeyrissjóður arkitekta, Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF, Lífeyrissjóður FÍH, Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna, Lífeyrissjóður lækna og Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands.

Stjórn lífeyrissjóðsins tók þá ákvörðun í kjölfar áfalla á fjármálamarkaði að yfirfara rekstrarfyrirkomulag sjóðsins og skoða kosti þess að hefja sjálfstæðan rekstur, en sjóðurinn hefur átt farsælt samstarf við Íslandsbanka í nær tvo áratugi.

Stjórnin telur að sjóðurinn hafi nú náð þeirri stærð að eðlilegt sé að stíga þetta skref. Markmiðið með þessari breytingu er m.a. að styrkja Almenna lífeyrissjóðinn sem sjálfstæðan lífeyrissjóð. Sjóðurinn stefnir að því að veita sjóðfélögum áfram úrvals þjónustu og tryggja þeim góðan lífeyri.

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur jafnframt gert samkomulag við Íslandsbanka hf. um áframhaldandi samstarf á ýmsum sviðum. Þannig mun Íslandsbanki áfram bjóða viðskiptavinum sínum að greiða lágmarks- og viðbótariðgjöld í Almenna lífeyrissjóðinn.

Sjóðfélagar munu áfram sjá upplýsingar um réttindi og inneign í netbanka Íslandsbanka. Þá mun Íslandsbanki sjá um vörslu verðbréfa fyrir lífeyrissjóðinn auk þess sem sjóðurinn mun áfram nýta sér þjónustu Eignastýringar Íslandsbanka.

,,Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins telur það rétt skref að Almenni lífeyrissjóðurinn hefji nú sjálfstæðan rekstur og byggi upp sjálfstæða eignastýringu," segir Páll Á. Pálsson, formaður stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins. „ Við höfum átt mjög gott samstarf við Íslandsbanka og náð með stuðningi bankans að byggja upp sterkan lífeyrissjóð sem veitir á ýmsum sviðum meiri upplýsingar og þjónustu en aðrir lífeyrissjóðir. Nú hefur sjóðurinn náð þeirri stærð að eðlilegt er að hann yfirtaki reksturinn til að efla sjálfstæði hans."

,,Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Almenna lífeyrissjóðsins en sjóðurinn hefur verið í fararbroddi innlendra lífeyrissjóða á liðnum árum," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. „En nú er komið að tímamótum. Við erum mjög ánægð með að geta áfram boðið viðskiptavinum okkar að greiða í Almenna lífeyrissjóðinn auk þess sem sjóðurinn mun áfram eiga gott samstarf við eignastýringu bankans. "








Fleiri fréttir

Sjá meira


×