Viðskipti innlent

Nýi Kaupþingsbankinn sakaður um sóðaleg vinnubrögð

Mikil óánægja er meðal kröfuhafa Pennans eftir að fyrirtækið var sett í gjaldþrotameðferð í gær að kröfu Nýja Kaupþings. Bankinn keypti rekstur fyrirtækisins og stofnaði í kringum hann nýja kennitölu. Kröfuhafar saka bankann um kennitöluflakk og sóðaleg vinnubrögð.

Nýja Kaupþing tók yfir rekstur Pennans þann 20. mars síðastliðinn eftir að viðræður um endurskipulagningu fyrirtækisins runnu út í sandinn. Penninn rekur meðal annars verslanir Eymundsson og bókabúð Máls og menningar.

Í gær ákvað Kaupþing hins vegar að færa reksturinn yfir á nýja kennitölu og á sama tíma var sú gamla sett í gjaldþrot. Nú þegar hefur verið settur skiptastjóri yfir þrotabúi „gamla" Pennans.

Verslanir Pennans verða því reknar áfram undir nýrri kennitölu en fyrirtækið skipti formlega um nafn í morgun samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá. Það heitir nú Penninn á Íslandi ehf.

Segja má að Kaupþing hafi beitt hérna sígildu kennitöluflakki og þannig skilið marga kröfuhafa „gamla" Pennans eftir með sárt ennið.

Einn kröfuhafi sem fréttastofa talaði við í dag sagði það með ólíkindum að ríkisbanki beitti slíkum aðferðum og talaði um sóðaleg vinnubrögð.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru taldar litlar líkur á því að eignir í þrotabúi Pennans dugi til að greiða allar skuldir. Kröfuhafar verða því væntanlega að afskrifa tugi milljóna króna.

Fram kemur í svari Kaupþings við fyrirspurn fréttastofu vegna málsins að ekki hafi verið forsvaranlegt að setja meiri pening í fyrirtækið. Með því að fara þessa kennitöluleið hafi 300 störfum verið bjargað.

Helgi Júlíusson, forstjóri Pennans, sagði í samtali við fréttastofu í dag að reynt verði að semja við kröfuhafa og ná ásættanlegri niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×