Viðskipti innlent

Rektor HÍ flutti erindi í Harvard háskólanum

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands heimsótti í vikunni Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum. Kristínu var boðið að flytja erindi í Menntavísindaskóla Harvard (Harvard Graduate School of Education) þar sem hún ræddi um hlutverk og ábyrgð háskóla á tímum endurreisnar efnahagslífs.

Í tilkynningu segir að Kristín átti jafnframt fundi í Harvard School of Public Health en víðtækt samstarf hefur verið milli hans og Háskóla Íslands í rannsóknum og kennslu í lýðheilsuvísindum. Þá heimsótti Kristín Broad Institute og hitti Eric Lander sem veitir stofnuninni forstöðu, en hann var nýlega skipaður ráðgjafi í stjórn Baracks Obama í málefnum vísinda. Broad Institute er í hópi fremstu vísindastofnana heims á sviði erfðafræðirannsókna, ásamt Íslenskri erfðagreiningu og Sanger Institute við Cambridge háskóla.

Efnahagsáföll í Bandaríkjunum að undanförnu hafa valdið fjárhagserfiðleikum hjá Harvard háskóla. Forsvarsmenn skólans sýndu mikinn áhuga á að heyra um viðbrögð Íslendinga eftir efnahagshrun, með hvaða hætti brugðist hafi verið við og hvaða tækifæri Íslendingar sjái í erfiðri stöðu.

Samstarf Háskóla Íslands og Harvard hefur verið mjög farsælt, og í ljósi þess lýstu forsvarsmenn Harvard áhuga á auknu samstarfi. Ýmsir möguleikar verða því skoðaðir í kjölfar heimsóknarinnar. Kristín lagði í erindi sínu áherslu á mikilvægi stefnufestu og þess að byggja á styrkleikum í endurreisn efnahagskreppu auk þess að vinna markvisst að aukinni verðmætasköpun, m.a. innan háskóla.

Sterk staða íslenska heilbrigðis- og menntakerfis, sem og sjávarafurðir, endurnýjanleg orka og aðrar auðlindir yrðu Íslendingum traustar stoðir í endurreisn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×