Skoðun

Atvinnutruflarar

Ari Arnórsson skrifar um atvinnumál

Ég var um daginn að sinna hópi fólks í skemmti/mútuferð á kostnað bresks fyrirtækis.

Þau eru 3.000 – þrjú þúsund – saman í húsi, sitja við síma og selja fyrirtækjum gas. Að auki aka hundruð um í bílum til að heimsækja fyrirtæki og selja þeim gas. Og svo eru allir hinir sem selja almenningi gas. Og gleymum ekki að það eru sex önnur fyrirtæki líka að selja öllum gas. Og svo er gríðarleg vinna að selja rafmagn, aftur og aftur. Það er önnur deild. Enn fleiri sitja og stýra öllu þessu fólki. Þetta eru ansi mörg þúsund manns.

Starfi alls þessa fólks er aðeins einn. Að trufla vinnandi fólk. Því sama hvað seljandinn heitir: Gasið er það sama, kemur frá sama stað um sama rör og kostar sama. Rafmagnið líka. Þar sem allir eru með sama verð ræður þjónustan, segja þau. Hvaða þjónusta? Jú, að trufla vinnandi fólk betur en keppinautarnir, gefa enn fleiri penna, flísteppi og bæklinga og bljúgyrði en hinir. Því rörin eða gasið í þeim kemur þjónustu fyrirtækisins ekki við. Það er annað fyrir­tæki í því. Skilvirkni hagkerfisins ykist við það að þetta fólk hætti störfum. Gerði ekki neitt. Á kaupi. Fólkið sem er að búa eitthvað til úr gasinu í alvörufyrirtækjunum hætti þá að tapa vinnutíma í atvinnutruflarana. Enn ykist framleiðni þjóðfélagsins ef allt þetta fólk beindi kröftum sínum til að aðstoða frekar en að trufla. Segjum með því að grafa skurði, eða stunda vísindastörf. Þessi vúdútrú er viðurkennd víðar en á Haítí. Meira að segja hér í smáþorpinu okkar Íslandi á að framleiða vinnu með nauðungarmilliliðun. Dæmi: Umferðarstofa skal halda bifreiðaskrá en er bannað að veita upplýsingar úr henni nema til fyrirtækja sem selja upplýsingarnar. Annað dæmi: „Samkeppni“ í sölu á rafmagni. Sama rafmagninu úr sömu leiðslunni.

Þetta er annaðhvort trúarkredda eða til atvinnusköpunar. Sé hið seinna rétt væri hagkvæmara að borga einkarafmagnssölufólkinu fyrir að gera ekkert en stunda þau skemmdarverk á hagkerfinu sem það vinnur í góðri trú. Einmitt, trú. Þér trúaðir: Prófið nú að skipta yfir í jólasveininn, eða Jesú, í staðinn fyrir vúdúið. Það veldur minna tjóni um mánaðamótin heima hjá mér og öðrum almenningi.

Höfundur er leiðsögumaður.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×