Viðskipti innlent

Norski Miðjuflokkurinn spilar sóló með Íslandslán

Norski Miðjuflokkurinn, Senterpartiet, virðist einn á báti í komandi ríkisstjórn Noregs hvað varðar viljan til að lána Íslandi allt að 100 milljörðum norskra kr. eða yfir 2.000 milljarða kr. Þetta kemur fram í viðtali ABC Nyheter við Per Olaf Lundteigen talsmann flokksins í fjármálum á norska Stórþinginu.

„Ég tala hér sem talsmaður Miðflokksins í fjármálum," svarar Per Olaf aðspurður um harða afstöðu Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs um að Norðmenn myndu ekki lána Íslendingum fyrr en niðurstaða hefði fengist í Icesave málinu.

ABC Nyheter greinir frá fundi sem Per Olaf átti með Höskuldi Þórhallssyni þingmanni Framsóknarflokksins í Osló nýlega en Miðflokkurinn er systurflokkur Framsóknar í Noregi.

„Fyrir hönd Miðflokksins sagði ég Þórhallssyni að við værum reiðubúin til að veita allt að 100 milljarða norskra króna lán með 4% vöxtum og að lánið yrði afborgunarlaust fyrstu fimm árin," segir Per Olaf. „Frumkvæðið liggur nú hjá ríkisstjórn Íslands sem verður að gefa merki um að hún óski eftir þessu láni."

Það kemur ennfremur fram í máli Per Olaf að ef dómstólar verði látnir skera úr um lögmæti Icesave samningsins verði greiðslur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frystar á meðan. „Þar með hefur Ísland þörf fyrir aðra lánamöguleika," segir Per Olaf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×