Viðskipti innlent

Tekjur upp um 18 milljarða, gjöld jukust um 65 milljarða

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu átta mánuði ársins 2009 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpa 79 milljarða kr., sem er 95 milljörðum kr. lakari útkoma heldur en á sama tímabili í fyrra. Tekjur reyndust 18 milljörðum kr. minni en í fyrra á meðan gjöldin jukust um 65 milljarða kr.

 

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins voru rúmlega 276 milljarða kr. sem er 18 milljarða kr. minna en á sama tíma árið 2008. Áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að tekjur tímabilsins yrðu rúmlega 282 milljarðar kr. og er frávikið því neikvætt um 6 milljarða kr. Þetta kemur fram í greinargerð með greiðsluafkomu ríkissjóðs sem birt hefur verið á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

 

Innheimtan hefur verið minni en reiknað var með í áætlun fjárlaga allt frá ársbyrjun. Frávikið það sem af er ári er þó minna nú en áður þar sem innheimta ágústmánaðar var óvenjumikil eða 49,4 milljarða kr. Tvær meginskýringar eru á því: Eindagi fjármagns­tekju­skatts af staðgreiðsluskyldum fjármagns­tekjum á fyrstu tveimur árs­fjórðungum ársins var í byrjun ágúst. Hin skýringin á mikilli innheimtu í ágústmánuði liggur í innheimtu virðis­auka­skatts

 

Virðisaukaskattur, sem er stærsti hluti veltuskattanna, nam 16,1 milljarði kr. í ágúst sem er hið langmesta í einum mánuði frá ársbyrjun. Árstíðarbundin sveifla tengd neyslu ferðamanna er óvenjusterk í ár vegna mikils fjölda erlendra ferða­manna og meiri ferða­laga Íslendinga innanlands en undanfarin sumur.

 

Greidd gjöld nema 346,7 milljarði kr. og hækka um 64,8 milljarða kr. frá fyrra ári, eða 23%. Milli ára hækka vaxtagjöld ríkissjóðs mest eða 22,7 milljarða kr.

 

Þá hækkuðu útgjöld til almanna­trygginga og velferðarmála um 20 milljarða kr. sem skýrist að mestu með 15,5 milljarða kr. hækkun útgjalda Atvinnu­leysis­tryggingasjóðs á milli ára, 3,3 milljarða kr. hækkun á vaxtabótum og 1,1 ma.kr. hækkun á barnabótum.

 

Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 7,5 milljarða kr. milli ára þar sem útgjöld til Sjúkratrygginga skýra 6,3 milljarð kr. Útgjöld til menntamála aukast um 2,9 milljarða kr. þar sem útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna aukast um 1,1 milljarð kr. milli ára og útgjöld til framhaldsskóla um 1,8 milljarð kr.

 

Útgjöld til efnahags- og atvinnumála aukast um 2,7 milljarða kr. og skýra framkvæmdir Vegagerðarinnar um 0,6 milljarð kr. og Hafnarbótasjóður 1,0 milljarð kr. Þá aukast útgjöld til Ábyrgðasjóðs launa um 646 milljónir króna á milli ára.

 

Útgjöld til löggæslu, réttar­gæslu og öryggismála aukast um 2,0 milljarða kr. milli ára þar sem fjárfesting Landhelgissjóðs í varðskipi og flugvél skýra aukninguna að langstærstu leyti. Breytingar í öðrum málaflokkum eru minni en þau sem áður hafa verið talin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×