Viðskipti innlent

Telja boðaðar skattahækkanir í dag nema 55 milljörðum

Greiningardeild Nýja Kaupþings hefur gróflega tekið saman hvað hugsanlegar skattahækkanir gætu skila miklu í ríkiskassann. Niðurstöðutalan úr þeirri samantekt nemur ríflega 55 milljörðum kr. í auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að boðaðar skattahækkanir munu líta dagsins ljós í dag þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 verður lagt fyrir Alþingi.

Fjármálaráðuneytið birti í júlí sl. skýrslu þar sem kemur fram hvaða leiðir eru hugsanlegar til að ná því markmiði að rekstur ríkissjóðs skili afgangi á árinu 2013. En þar koma m.a. fram mögulegar leiðir til innheimtu tekna með skattahækkunum.

Greining tekur síðan saman helstu póstana. Tekjur vegna óbeinna skatta eru að virðisaukaskattur hækkar og að því gefnu að virðisaukaskattslækkunin sem átti sér stað í mars 2007 gangi tilbaka mun tekjuaukningin skila ríkissjóði um 12 milljörðum króna.

Fjármálaráðherra telur að unnt væri að hækka áfengisgjald í þremur áföngum, hver um sig nemur 10% og kæmi fram á árunum 2009 - 2011. Slík hækkun myndi skila ríkissjóði alls 2,5 milljarða kr. þegar framkvæmdin hefur að fullu komið fram

Stefnt er að því að hækka tóbaksgjald í tveimur áföngum árið 2009 og 2010, slík hækkun myndi skila alls 1-1,5 milljarða kr. (eða 500-750 milljónir kr. á ári).

Skattar á gistingu og flugfarseðla gætu gefið ríkissjóði um 1,1 milljarði kr. í auknar tekjur.

Til athugunar er einnig að setja á umhverfisskatta. T.d. hefur verið nefnt að setja á kolefnisgjald sem miðar við 2.500 kr. gjald á hvert tonn af kolefni. Slíkt gjald gæti skilað ríkissjóði um 2,5 milljarða kr. á ári í auknar tekjur.

Tekjur vegna beinna skatta felast að mati greiningarinnar í að boðaðar hafa verið breytingar á tekjuskatti einstaklinga . Með því að færa hlutfall tekjuskatts af landsframleiðslu í sama horf og það var á árunum 2005-2007 myndu tekjur ríkissjóðs aukast um 30-35 milljarða kr. (gerir greiningin ráð fyrir að slík áhrif kæmu öll fram á næsta ári).

Jafnframt hefur verið nefnd möguleg tekjuaukning með því að hækka skatthlutfall á fyrirtæki um 1% en slíkt gæti skilað ríkissjóði 1,2 milljarði kr. í auknar tekjur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×