Viðskipti innlent

Skatttekjur Akureyrar hækka um 426 milljónir

Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun Akureyrar kemur fram að skatttekjur bæjarins hækka um 426 milljónir kr. og verða 7,4 milljarðar kr. Munar þar mestu um auknar útsvarstekjur upp á 318 milljónir kr.

 

Þetta skýrist fyrst og fremst að því að efnahagsþrengingar þjóðarinnar hafa ekki komið jafn þungt niður á rekstri Akureyrarbæjar og útlit var fyrir í upphafi ársins.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu um frumvarp að endurskoðaðri fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 sem verður lagt fram í bæjarstjórn í dag þriðjudag. Þrátt fyrir þrengingar í efnahagslífi þjóðarinnar má greina ýmis jákvæð teikn í áætluninni, svo sem auknar útsvarstekjur og bætta afkomu miðað við það sem áður hafði verið gert ráð fyrir.

 

Forsendur upphaflegrar áætlunar hafa að mestu haldið. Reiknað var með 7% verðlagsbreytingu á milli ára en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir 7,9% hækkun verðlags. Þessar forsendur hafa mikil áhrif á fjármagnsgjöld eins og kom fram í upphaflegri áætlun en reiknað var með halla upp á tæpar 1.100 milljónir kr.

 

Útgjöld bæjarsjóðs hafa hækkað um 366 milljónir kr. og vega þar þyngst kjarasamningsbundnar launahækkanir og hækkun tryggingargjalds sem rennur í atvinnuleysistryggingasjóð. Innri húsaleiga bæjarins hækkar einnig um rúmar 94 milljónir kr. og annar kostnaður um 164 milljónir kr. Framlag til reksturs Öldrunarheimila Akureyrarbæjar hækkar um tæpar 50 milljónir kr. og verður samtals 183 millljónir kr.

 

Í vor var samþykkt sameining sveitarfélaganna Grímseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar og hafa áhrif sameiningarinnar nú verið tekin inn í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Tekjur og útgjöld vegna hennar eru nánast jafn háir liðir, tekjurnar þó aðeins hærri en gjöldin.

 

Endurskoðað framkvæmdayfirlit gerir ráð fyrir auknum framkvæmdum upp á um 240 milljónir kr. og er stærsti einstaki liðurinn þar framkvæmdir við glæsilegt íþróttasvæði við Hamar vegna Landsmóts UMFÍ sl. sumar.

 

Lántaka Akureyrarbæjar á þessu ári lækkar um 1.100 milljónum kr. sem stafar að stærstum hluta af því að lokið var að mestu við fjármögnun ársins 2009 í árslok 2008.

 

Niðurstaðan er bætt afkoma í A-hluta samstæðunnar um sem nemur 111 miljónum kr. Rekstrarhalli A-hluta verður því 985 milljónir kr. í staðinn fyrir tæpar 1.100 milljónir kr. sem gert hafði verið ráð fyrir í fyrri fjárhagsáætlun. Afkoma samstæðunnar í heild batnar um 155 milljónir kr. frá fyrri áætlun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×