Erlent

Kosið í skugga hótana

MYND/AP

Forsetakosningar standa nú yfir í Afganistan en þær fara fram í skugga hótana Talíbana um að gera árásir á kjörstaði.

Kjörstaðir hafa opnað í þessu stríðshrjáða landi en aðstæður í Afganistan til frjálsra kosninga eru heldur lakar. Gífurleg öryggisgæsla er við kjörstaði og um 300 þúsund hermenn frá vesturlöndum og afganistan hafa það verkefni að halda friðinn á þeim 6000 kjörstöðum sem opnaðir hafa verið.

Talíbanar hafa hins vegar ítrekað hótað árásum á kjörstaði og nú þegar hafa borist fregnir af eldflaugaárásum í brogunum Kandahar og Kunduz. Talíbanar segjast hafa sent útsendara sína út á meðal fólksins og hafa þeir boðað að minnsta kosti tuttugu sjálfsmorðsárásir í höfuðborginni Kabúl í dag. Síðustu daga hafa um 25 manns látist í sprengjuárásum Talíbana víðsvegar landið. Í morgun voru tveir Talíbanar felldir í Kabúl eftir að til skotbardaga kom á milli þeirra og hersins.

Um 15 til 17 milljónir manna hafa skráð sig til þáttöku í kosningunum en Afganir eru um 33 milljónir. Fastlega er búist við því að sitjandi forseti Hamid Karzai fari með sigur af hólmi í kosningunum en fyrrverandi utanríkisráðherra landsins Abdullah Abdullah gæti ógnað honum að einhverju marki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×