Viðskipti innlent

Segir samningsstöðu Íslands gagnvart ESB vera erfiða

Bronwen Maddox helsti dálkahöfundur The Times um erlend málefni segir að samningsstaða Íslands gagnvart Evrópusambandinu muni verða erfið. Ísland sé í augljósri þörf fyrir að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil sem sé grunnurinn að því að byggja upp stöðugleika að nýju.

Veikleikinn í stöðu Íslands að mati Maddox er að landið hefur áhuga á að fara í aðildarviðræður við ESB á þeim tímapunkti þegar sambandið er að loka dyrum sínum fyrir aðild fleiri þjóða. ESB mun ekki stækkað frekar fyrr en Írar hafi samþykkt breytingar á nýjum reglum um stjórn ESB en þjóðaratkvæðagreiðsla í Írlandi um málið er áformuð í október á þessu ári. Maddox nefnir einnig að leysa verði deilu Króata og Sloveníu um landhelgismál áður en nýjar þjóðir eigi kost á aðildarviðræðum.

„En þrátt fyrir að þessir erfiðleikar leysist eru aðrar þjóðir ESB vel meðvitaðar um örvæntingu Íslands og munu ganga hart eftir því að Íslendingar gefi eftir hvað fiskveiðiréttindi varðar," segir Maddox. „Spánn mun örugglega leggja áherslu á það atriði eftir að Spánn tekur við formennskunni í ESB á næsta ári."

Maddox segir að Ísland eigi ekki marga aðra aðgengilega kosti en ESB. Landið verði að spila vel úr veikri hendi og geri best í því að minna ESB á að það eru til aðrir klúbbar sem það geti gengið í. Þar nefnir Maddox upptöku dollarans eða aðildarumsókn að fríverslunarbandalagi ríkjanna í Norður Ameríku.

„Frá miðju Atlantshafsins hefur Íslandi ætíð gengið vel að spila Bandaríkin gegn Evrópu og bæði svæðin gegn Rússlandi. Slík hefur skapað trúnaðarbrest en er eftir sem áður besta spilið á hendi Íslands," segir Maddox.

Fram kemur í máli Maddox að aðildarviðræður við ESB yrðu Íslendingum sársaukafullar. Fiskveiðiréttindin eru mál sem ekki sé hægt að sópa undir teppið. Staðreyndin sé samt sú að Ísland annist vel um fiskistofna sína en það geri ESB ekki.

„Það er vissulega rétt hjá nýrri stjórn að horfa til Brussel. En landið gæti styrkt hendi sína með því að bíða og athuga aðra möguleika," segir Maddox.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×