Viðskipti innlent

Eignarhlutur Kaupþings í Storebrand fjórfaldast í verði

 

 

 

Eignarhlutur Kaupþings í norska tryggingarfélaginu Storebrand hefur fjórfaldast í verði frá haustinu 2008. Þá var 5,5% hlutur bankans metinn á 29 milljónir evra en í dag er verðmæti hlutarins kominn í 112 milljónir evra eða tæplega 21 milljarðar kr.

Þegar útibú Kaupþings i Noregi var sett í greiðslustöðvun í október 2008 voru eignir útibúsins frystar og verulegar líkur á því að 5.5% hlutur Kaupþings í tryggingafélaginu Storebrand yrði seldur á þáverandi markaðsverði eða í kringum 10 norskar kr. á hlut sem samsvaraði 29 milljónum evrum á þeim tíma.

 

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings tókst skilanefndinni síðastliðið haust að koma í veg fyrir yfirvofandi sölu þarlends skiptastjóra á hlut bankans.

 

Með samningum við norsk yfirvöld og skiptastjóra útibúsins í Noregi tókst skilanefnd að greiða norskum sparifjáreigendum innstæður sínar til baka og aflétta kyrrsetningu eigna. Þannig endurheimti Kaupþing stærstan hluta fyrirtækjalánasafns útibúsins í Noregi að andvirði um 250 milljónir evra, eða rúmlega 46 milljarða kr., auk 5.5% hlutar í Storebrand.

Ákvörðun var tekin af skilanefnd um að selja ekki bréfin og eru þau enn í eigu bankans. Fyrir helgi var gengi bréfanna í norsku kauphöllinni rúmlega 38 norskar kr. og markaðsvirði bréfanna því rúmlega 112 milljónir evra eða tæplega 21 milljarður íslenskra króna.

 

Virði þeirra hefur því tæplega fjórfaldast frá því í október 2008 og hækkað um u.þ.b. 83 milljónir evra eða rúmlega 15 milljarða króna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×