Viðskipti innlent

Spölur ehf. með tap upp á 238 milljónir

Tap Spalar ehf. eftir skatta fyrir tímabilið 1. október 2008 til 31. mars 2009 nam kr. 238 milljónum kr. en tap á tímabilinu 1. október 2007 til 31. mars 2008 nam 169 milljónum kr.

Í yfirliti um uppgjörið segir að tap Spalar eftir skatta á öðrum ársfjórðungi félagsins sem er 1.janúar 2009 til 31. mars 2009 nam 93 milljónum kr. Á sama tíma árið á undan var tap félagsins 146 milljónum kr.

Veggjald um Hvalfjarðargöngin nam 344 milljónum kr. fyrstu 6 mánuði ársins til samanburðar við 397 milljónir kr. árið áður sem er 15,4% lækkun.

Rekstrarkostnaður Spalar ehf án afskrifta fyrstu 6 mánuði ársins nam 129 milljónum kr. og lækkar um rúm 29,5% frá sama tímabili árinu áður þegar hann nam 167 milljónum kr.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar ehf, segir að umferð og tekjur séu í samræmi við áætlanir félagsins. Gert hafi verið ráð fyrir nokkrum samdrætti í umferð og tekjum, einkum fyrrihluta rekstrarársins. Jafn mikil hækkun reikningslegra gjaldfærslna, einkum vegna hækkunar lána út af vísitöluhækkunum var ekki fyrirséð.

Á þessu 6 mánaða tímabili fóru tæplega 792 þúsund ökutæki um göngin sem greiddu veggjald sem er 6,1% minnkun frá sama tímabili árið áður.

Meðaltekjur fyrir hverja ferð um göngin fara sífellt lækkandi, bæði að nafnverði og raunverði. Skýringin er sú að fleiri og fleiri viðskiptavinir nýta sér afsláttarmöguleika og veggjaldið hefur lækkað talsvert á síðustu árum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×