Viðskipti innlent

Lítil sem engin krónuviðskipti á aflandsmarkaðinum

Lítil sem engin viðskipti hafa verið á aflandsmarkaði með krónur síðustu vikuna, og kostar evran á aflandsmarkaði nú 200 kr.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Eins og sagt var frá í Hagsjá í lok síðasta mánaðar höfðu þá verið umtalsverð viðskipti með krónur og fór gengi evrunnar undir 190 kr. á tímabili. Erfitt er að fylgjast með umsvifum á aflandsmarkaði en fátt gefur til kynna að viðskipti á honum séu mikil.

Í Hagsjánni segir ennfremur að hinsvegar sé enn nokkuð bil milli þessara tveggja markaða, þ.e aflandsmarkaðsins og hins innlenda gjaldeyrismarkaðs, þótt það hafi dregið úr því undanfarið.

Miðgengi evrunnar er 184,35 krónur í gær samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans og hefur það farið nokkuð hækkandi síðustu daga. Evran hefur ekki kostað jafnmikið frá því í byrjun desembermánaðar í fyrra ef frá er talinn 1. ágúst, en þá var miðgengi evrunnar rétt tæpar 185 kr.

Frá því í miðjum mars hefur gengi evrunnar gagnvart krónunni hækkað mikið, mest framan af, en svo hefur dregið úr hraða hækkunarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×