Viðskipti innlent

Actavis: Borgar 55 milljarða í vexti

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Lyfjafyrirtækið Actavis tapaði þrjátíu og fjórum milljörðum króna í fyrra og greiddi fimmtíu og fimm milljarða króna í vexti. Félagið er skuldasettasta fyrirtæki landsins og skuldaði tæpa þúsund milljarða í árslok 2008. Hugmyndir eru um að skrá félagið í kauphöll að nýju.

Stærsta skuldsetta yfirtaka Íslandssögunnar var þegar Björgólfur Thor Björgólfsson, keypti út aðra hluthafa í Actavis, í hittiðfyrra. Félagið var í kjölfarið tekið af markaði.

Félagið tapaði sem nemur tæpum þrjátíu og fjórum milljörðum króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi síðasta árs.

Skuldir eru samkvæmt reikningnum um 720 milljörðum íslenskra króna. Þær eru þó hærri eftir því sem næst verður komist um þúsund milljarðar króna. Það skýrist af ýmsum skuldum innan samstæðunnar, sem ekki er fjallað um í reikningnum. Vaxtakostnaður félagsins í fyrra, nam 55 milljörðum króna; sem er ríflega helmingur þess sem ríkið greiðir í vexti á næsta ári af öllu sínu. Enn fremur er þetta drjúgum meira en kostar að reka Landspítalann í eitt ár.

Greint er frá fjórum hugmyndum um framtíð félagsins í ársreikningi 2008. Ein er að Actavis sameinist öðru stóru lyfjafyrirtæki, taki yfir annað félag, verði hlutað í sundur eða að Actavis verði skráð í kauphöll að nýju. Ekki hefur frést um ákvörðun, en Merrill Lynch bankinn hefur verið fenginn til ráðgjafar um kostina.

Björgólfur Thor Björgólfsson, keypti Actavis. En þaðan og til Björgólfs er löng keðja félaga.

Actavis hf

Actavis Group PTC ehf

Actavis Group hf

Actavis eignarhaldsfélag ehf

Actavis Pharma Holding 5

Actavis Pharma Holding 4

Actavis Pharma Holding 3

Actavis Pharma Holding 2

Actavis Pharma Holding 1

Novator Pharma S.á.rl.

Þar að baki er félagið Novator Pharma Holdings Limited, sem skráð er á Tortola, á bresku Jómfrúreyjum. Lengra komumst við ekki, en ekki vitum við betur en að baki þessu öllu standi Björgólfur Thor Björgólfsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×