Viðskipti innlent

Innistæðubréf hækka vextina á millibankamarkaðinum

Útgáfa innstæðubréfa, sem nú nemur 50 milljörðum kr., virðist farin að hafa áhrif á skammtímavexti á millibankamarkaði. Í gær hækkuðu REIBOR-vextir nokkuð og eru mánaðarvextir nú 8,75%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að Seðlabankanum gæti því orðið að þeirri ósk sinni á næstunni að skammtímavextir í fjármálakerfinu færist að innlánsvöxtum bankans, en það var megintilgangur útgáfu 28 daga innstæðubréfa.

Hinsvegar hafa sáralitlar breytingar orðið á óverðtryggða vaxtaferlinum á skuldabréfamarkaði í morgun. Má ætla að auknar væntingar um vaxtalækkun eftir birtingu fundagerðar peningastefnunefndar hafi vegið upp hækkun millibankavaxtanna í gær.



Seðlabankinn mun halda útboð á ríkisvíxlum næstkomandi þriðjudag og verður forvitnilegt að sjá hver niðurstaða þess verður í ljósi tíðinda gærdagsins. Í víxlaútboði septembermánaðar voru flatir vextir tekinna tilboða 8,53% að meðaltali, sem voru hæstu meðalvextir í víxlaútboði frá því í apríl.

Niðurstaðan á þriðjudag er líkleg til að gefa til kynna hvort vegur þyngra í hugum fjárfesta, mýkri tónn nýs Seðlabankastjóra hvað vexti varðar eða hækkun millibankavaxta í kjölfar útgáfu innstæðubréfa bankans.

„Þó er rétt að hafa í huga að óvissa tengd því hvort, hvernig og hvenær verður leyst úr Icesave-málinu, og í kjölfarið hvenær áætlun um afléttingu hafta og lækkun innlendra vaxta kemst á skrið, er með mesta móti og ekki víst að þau mál skýrist fyrir víxlaútboðið," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×