Viðskipti innlent

Tvö eða fleiri bankaútibú í 11 landsbyggðarkjörnum

Í ellefu landsbyggðarkjörnum fyrir utan höfuðborgarsvæðið er að finna tvö eða fleiri útibú á vegum stóru bankanna þriggja. Og í fjórum stærstu bæjum landsins eru allir bankarnir þrír með útibú.

Þeir staðir sem skarta útibúum frá Íslandsbanka, Landsbankanum og Kaupþingi eru Reykjanesbær, Selfoss, Akureyri og Mosfellsbær. Raunar eru sparisjóðir einnig með útibú á þessum stöðum.

Þeir staðir þar sem útibúin eru tvö talsins eru Ísafjörður, Sauðárkrókur, Reyðarfjörður, Húsavík, Grundarfjörður, Akranes og Egilsstaðir.

Landsbankinn rekur langflest útibú á landsbyggðinni af bönkunum þremur eða samtals 26 slík. Kaupþing rekur 12 útibú og Íslandsbanki 10.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að fækkun útibúa á landsbyggðinni hafi ekki komið sérstaklega til umræðu. „Enda myndi viðskiptaráðuneytið ekki skipta sér af skipulagi bankanna hvað fjölda og staðsetningu útibúa varðar," segir Gylfi.

Hinsvegar kemur fram í máli viðskiptaráðherra að þessi þáttur í starfsemi bankanna kemur væntanlega til skoðunar þegar framtíðarskipulag bankanna verður ákveðið. „Þá mun verða litið á hvort ekki sé hægt að spara og hagræða með því að fækka eða sameina útibúin," segir Gylfi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×