Viðskipti innlent

Hefur yfirheyrt yfir fimmtíu manns

Um 460 erindi hafa borist embætti sérstaks saksóknara og vel yfir fimmtíu manns hafa verið yfirheyrðir eða gefið skýrslu í tengslum við rannsóknir mála. Ekkert þeirra er enn komið á lokastig rannsóknar.

Dómsmálaráðherra skipaði Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, frá og með fyrsta febrúar á þessu ári, og voru samstarfsmenn hans fjórir í upphafi. Síðan þá hefur embættinu vaxið fiskur um hrygg og nú eru þar starfandi 16 manns.

460 erindi - ábendingar, kærur og fleira - hafa borist embættinu á því rúmlega hálfa ári sem það hefur verið starfandi. 36 mál eru í svonenfdri málaskrá - þar af eru rúmlega 30 kærur frá Fjármálaeftirlitinu, skattayfirvöldum eða öðrum sem telja sig hafa hagsmuni að gæta. Mörg þessara mála hafa leitt til áframhaldandi rannsóknar, öðrum hefur hins vegar verið vísað frá, sem ekki þóttu gefa tilefni til að hefja eiginlega rannsókn á.

Í tengslum við starf embættisins hefur verið gerð húsleit á yfir 30 stöðum og gríðarlegt magn gagna verið haldlagt, sem sérstakur saksóknari segir afar tímafrekt að yfirfara. Þá fara fram yfirheyrslur nánast í hverri viku og hafa vel yfir 50 manns verið kallaðir fyrir embættið eða þurft að gefa skýrslu um tiltekin mál.

Ólafur Þór vill ekki greina frá því hvaða mál eru lengst komin í rannsóknarferlinu og því síður hvort og þá hvenær eitthvert þeirra muni leiða til ákæru.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×