Viðskipti innlent

Nefndir ráðuneyta hafa kostað 300 milljónir

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Nefndir ráðuneytanna hafa kostað tæpar 300 milljónir króna á árinu, jafnmikið og ríkið ver til að reka Kvennaskólann á næsta ári. Dýrust var nefndin sem kannaði aðbúnað barna í Breiðavík, á Kumbaravogi og Bjargi.

Fjöldi nefnda og ráða með margvísleg hlutverk starfa undir hatti ráðuneytanna, þetta eru meðal annars samninganefndir, atvinnumálanefndir, áfrýjunar-, kæru- og úrskurðarnefndir. Þær kosta ríkissjóð allt frá um 30 þúsund krónum og upp úr.

Innan við 200 þúsund krónur hafa farið í nefndir hjá utanríkisráðuneytinu á árinu. Annars er nefndakostnaður mjög mismikill á milli ráðuneyta - langmestur hjá þremur, þær hafa kostað röskar 48 milljónir hjá forsætisráðuneytinu á árinu, 62 hjá heilbrigðisráðuneyti og 87,5 hjá ráðuneyti fjármála.

Samanlagt hafa nefndir ráðuneytanna kostað 298 milljónir á árinu. Fjórar eru langdýrastar - sú sem kannaði starfsemi vistheimila fyrir börn á árum áður, Icesave samninganefndin - þá Lyfjagreiðslunefnd og vísindasiðanefnd.

Eftir að stjórnvöld tilkynntu í júní að skera ætti nefndakostnað niður um helming, hafa mörg ráðuneyti afnumið og eða lækkað greiðslur til nefndarmanna, þannig hætti samgönguráðuneyti til dæmis í sumar að greiða hagsmunaaðilum fyrir nefndasetu. Enn er hins vegar óljóst hvort markmið um helmingsniðurskurð hefur náðst.

Og þótt 300 milljónir séu lítið brot af ríkissjóði - má fyrir það fé - samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs - mennta alla 560 nemendur Kvennaskóla Íslands í heilt ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×