Viðskipti innlent

ÍLS kaupir safn skuldabréfa af Sparisjóði Bolungarvíkur

Í ágúst var undirritaður samningur milli Íbúðalánasjóðs (ÍLS) og Sparisjóðs Bolungarvíkur um kaup á safni skuldabréfa tryggðu með veði í íbúðarhúsnæði að fjárhæð rúmlega 425 milljónir króna. Kaupin eru gerð í samræmi við heimild til slíkra kaupa samkvæmt lögum og reglum Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum fjármálafyrirtækja.

 

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir ágústmánuð. Þar segir að Íbúðalánasjóður greiddi 80% af uppreiknuðu virði safnsins með afhendingu íbúðabréfa úr flokki HFF150434 að fjárhæð 160.000.000 og HFF150644 að fjárhæð kr. 83.559.476 að nafnverði. Eftirstöðvarnar, eða 20%, er krafa Sparisjóðs Bolungarvíkur á Íbúðalánasjóð sem mun verða gerð upp að 8 árum liðnum.

 

Sparisjóði Bolungarvíkur er óheimilt að lána eða selja ofangreind íbúðabréf á eftirmarkaði og einungis heimilt að nota íbúðabréfin í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands. Kjósi Sparisjóður Bolungarvíkur að selja íbúðabréfin skuldbindur hann sig til að skipta sölu bréfanna niður á þrjú ár þannig að hámarksfjárhæð bréfa sem heimilt er að selja á hverju ári, fyrst á árinu 2010, sé 1/3 af nafnverðsfjárhæð afhentra bréfa.

 

Jafnframt áskilur Íbúðalánasjóður sér á þessu ári rétt til að skipta ofangreindum íbúðabréfum út fyrir bréf úr nýjum flokki íbúðabréfa sem stofnaður verður á árinu, þannig að uppreiknuð staða bréfanna við skiptin jafngildi markaðsvirði bréfanna úr flokkunum á skiptadegi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×