Viðskipti innlent

Framtíðarsýn skortir hér

Tækifærin liggja víða, jafnvel í Konungsbók Eddukvæða, segir Andri Snær Magnason rithöfundur.
 Fréttablaðið/GVA
Tækifærin liggja víða, jafnvel í Konungsbók Eddukvæða, segir Andri Snær Magnason rithöfundur. Fréttablaðið/GVA

Tækifærin eru innan í fólki. Þetta segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason. Hann lýsir eftir framtíðarsýn hér á landi.

„Jafnvel bankabólan var byggð á framtíðarsýn,“ segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason. Hann segir framsæknustu einstaklinga landsins hafa keyrt á slíku, jafnvel þótt það hafi keyrt um þverbak á endanum. Hann segir framtíðarsýn hafa almennt skort hér á landi lengi og fólk verði að setja heilann í bleyti til að átta sig á möguleikunum. Sjálfur sjái hann tækifærin í náttúrunni og inni í fólkinu sjálfu.

Andri Snær hélt erindi um málið á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga í gær undir yfirskriftinni: Er íslensk hagfræði viðundur?

Hann lýsti því hvernig Íslendingar hafi keyrt á uppblásinni framtíðarsýn allt frá þar síðustu aldamótum þegar Einar Benediktsson og fleiri framsýnir létu teikna upp virkjanakosti landsins langt umfram raforkuþörfina. Það sama hafi verið uppi á teningnum þegar stjórnvöld sögðu framtíðina felast í loðskinnaframleiðslu og fiskeldi á níunda áratug síðustu aldar.

Andri Snær sagði að víða mætti byggja upp góð tækifæri með stóra drauma á lofti. Það gæti tengst ýmsu, svo sem Konungsbók Eddukvæða, fisknum í sjónum og hvalarannsóknum á Húsavík. „Við erum ginnkeypt fyrir skyndilausnum en við megum ekki setja allt okkar á eina stoð,“ sagði Andri Snær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×