Viðskipti innlent

Vona að sala sendiráðabústaða gefi milljarð í kassann

Íslensk stjórnvöld hafa sett nokkra af helstu sendiráðabústöðum sínum erlendis til sölu. Samkvæmt frétt í Wall Street Journal um málið mun salan gefa af sér um 25 milljónir dollara eða tæpa 3 milljarða kr.. Pétur Ásgeirsson hjá utanríkisráðuneytinu segir að til standi að kaupa nýja ódýrari bústaði fyrir um það bil tvo milljarða.

Verðmiðinn sem settur er á sendiráðsbústaðinn í Washington er 5,65 milljónir dollara eða um 600 milljónir kr.. Bústaðurinn sem byggður var 1928 og er 941 fm að stærð hefur verið í eigu íslenska ríkisins undanfarin 50 ár. Í honum eru tíu svefnherbergi, fimm baðherbergi og sundlaug.

Í London er verðmiðinn á sendiráðsbústaðnum 10 milljónir punda eða tæpur 1,7 milljarður kr.. Bústaðurinn er staðsettur við Mayfair Park Street, byggður árið 1921 og 641 fm að stærð. Lyfta er í bústaðnum og honum fylgir aðgangur að lokuðum garði við hlið hans.

Í New York fara íslensk stjórnvöld fram á 5,6 milljón dollara eða um 600 milljónir kr. fyrir bústað sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Bústaðurinn er 381 fermetrar að stærð, telur fjögur svefnherbergi og er staðsettur við Park Avenue, hjá 55th Street.

Fjórði bústaðurinn sem er til sölu er í Osló, staðsettur við Bygdöy götu. Verðmat á honum liggur enn ekki fyrir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×