Viðskipti innlent

FÍS fundar með bankastjórum um skuldavanda fyrirtækja

Undanfarið hefur stjórn Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) fundað með bankastjórum stóru viðskiptabankanna og helstu stjórnendum þeirra um skuldavanda fyrirtækja. Fundir með Kaupþingi og Íslandsbanka hafa þegar farið fram en fundur með Landsbanka verður á miðvikudag.

 

Fjallað er um málið á heimasíðu FÍS. Þar segir að tilgangur fundanna sé að fá upplýsingar frá bönkunum um hvernig haldið er utan málefni fyrirtækja í skuldavanda.

 

Mikil umræða hefur verið um þessi mál og ýmsir félagsmenn FÍS hafa verið uggandi yfir því að ekki ríki jafnræði meðal skuldara þegar kemur að endurskipulagningu. Eins hafa menn vakið athygli á málum er varða samkeppni, t.d. í þeim tilvikum þar sem banki þarf að selja rekstrareiningar frá sér.

 

Ljóst er að bankarnir eru meðvitaðir um þá tortryggni sem ríkir í samfélaginu vegna málefna fyrirtækja í skuldavanda og eru að móta verklag hvað varðar afskriftir skulda og ekki síður söluferli á fyrirtækjum sem þeir hafa eignast. Vilji stendur til þess að söluferli fylgi opnu og gagnsæju verkferli. Mikilvægt er að slíkt gildi einnig um söluferli á vegum skiptastjóra fyrirtækja.

 

 

Það er gríðarlega mikilvægt að bankarnir hafi jafnræði og ekki síður samkeppni að leiðarljósi í starfsemi sinni. Vangaveltur og sögusagnir um möguleg og meint hrossakaup og vinargreiða eru engum til hagsbóta. FÍS mun fylgja þessu máli eftir, enda ríkir hagsmunir í húfi fyrir atvinnulíf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×