Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs á sömu slóðum og fyrir hrunið

Skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið heldur áfram að lækka og Í morgun stóð álagið í 424 punktum. Er álagið þar með komið á sömu slóðir og það var í fyrrahaust áður en bankahrunið skall á Íslandi.

Fyrir hrunið í haust var álagið í kringum 400 punkta, eða 4%, en fór síðan í 1.500 punkta eða 15% í október. Síðan þá hefur það stöðugt lækkað.

Þrátt fyrir að skuldatryggingar á íslenska ríkið hafi lækkað töluvert að undanförnu er landið samt sem áður í fimmta sæti þeirra þjóða sem mest er talin hætta á að lendi í gjaldþroti samkvæmt lista sem CMAvision birtir daglega.

Hinsvegar hafa líkurnar sem taldar eru á þjóðagjaldþroti Íslands einnig minnkað töluvert samkvæmt listanum og eru nú innan við 25%. Í byrjun júlí stóðu þessar líkur í tæpum 37%.

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 424 punktum samsvarar því að reiða þurfi fram rúm 4,2% af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin.

Lækkunin á álaginu undanfarna mánuði er í takt við þróunina á skuldatryggingamarkaðinum sjálfum en álagið á þjóðir og fjármálastofnanir hefur stöðugt lækkað undanfarna mánuði. Ástæðan er að margir telja að hið versta sé yfirstaðið í þeirri efnahagskreppu sem ríkt hefur í heiminum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×