Innlent

Slá pólitískar keilur í stað þess að gæta hagsmuna Íslendinga

Eiríkur Bermann, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst.
Eiríkur Bermann, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Mynd/Stefán Karlsson
Íslenskir stjórnmálamenn hafa frekar haft áhuga fyrir því að slá pólitískar keilur í Icesave málinu heima fyrir en að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi segir dósent. Hann bendir á að eðli EES-samstarfsins sé þannig að Íslendingar hefðu átt að fá sambærileg lánskjör á Icesave skuldbindingunum og þau sem Bretar og Hollendingar fjármagni sig á.

Daniel Gros, hagfræðingur og bankaráðsmaður Seðlabanka Íslands segir í álitsgerð sem Morgunblaðið greinir frá í dag að ef jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gilti þyrfti íslenska ríkið að greiða Bretum milljarði evra, eða 185 milljörðum króna minna í vexti af Icesave láni. Gros varpar fram þeirri spurningu hvort Bretum og Hollendingum í samræmi við jafnræðisregluna beri að veita Íslendingum sömu lánskjör og eigin tryggingarsjóðum.

Eiríkur Bermann, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, segir að eðli samstarfsins sé þannig að hægt sé að halda því fram að Íslendingar hefðu átt að fá sambærileg lánskjör og þau sem Bretar og Hollendingar fjármagni sig á.

„Hér virðist eins og Íslendingar hafi sjálfir sett sig í þá stöðu að vera meðhöndlaðir eins og utanaðkomandi aðila væri að ræða. Eins og að íslenska ríkið væri einkabanki á markaði. Þannig að við létum svolítið spila með okur út í horn í þessu máli," segir Eiríkur.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir ekkert hæft í frétt Morgunblaðsins. Erfitt sé að átta sig á hvaða jafnræðisreglu sé verið að vísa til. Ekki sé til nein allsherjarjafnræðisregla en þær reglur sem gildi innan EES séu fyrst og fremst varðandi samkeppnisstöðu.

„Það er klassísk afstaða margra íslenskra embættis- og stjórnmálamanna til Evrópusamstarfsins að hald það lagatæknilegt úrvinnsluefni þegar það er það auðvitað alls ekki. Evrópusamstarfið er fyrst og fremst pólitískt samstarf," segir Eiríkur sem bendir að málið snúist fremur um að vísa til almennra samstarfsreglna þar sem skýrt komi fram að bannað sé að mismuna eftir ríkisfangi.

„Satt að segja hefur mér fundist íslenskir stjórnmálamenn hafa frekar haft áhuga á því að slá pólitískar keilur í þessu máli heima fyrir heldur en að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi," segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×