Viðskipti innlent

Afskrifuðu ekki tugmilljarða tap

Stjórn gamla Kaupþings fegraði stöðu bankans með því að afskrifa ekki tug milljarða tap vegna skuldabréfa. Lögmenn segja almenning sem fjárfesti í bankanum hafa verið blekktan en því hafnar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.

Kaupþing fjárfesti í skuldabréfum í gegnum dótturfélag sitt í Bretlandi, New Bond Street Asset Management. Alls námu þessar fjárfestingar um 8 milljörðum evra á þriðja ársfjórðungi 2007. Þegar þarna var komið þóttu fjárfestingarnar of áhættusamar og hóf bankinn að minnka áhættu sína. Hluti af þessum skuldabréfum voru svokölluð undirmálslán á bandarískum húsnæðismarkaði en heimtur af slíkum lánum hafa verið í kringum 2%. Heimildir fréttastofu herma að í stað þess að afskrifa tap af þessum lánum hafi Kaupþing flutt tugi milljarða inn í félagið Black Sunshine sem stofnað var í Lúxemborg. Í efnahagsreikning bankans hér á landi voru þessi lán því ekki afskrifuð heldur stóðu sem lán til félagsins Black Sunshine. Þar með voru eignirnar ofmetnar þar sem væntanlegt tap var ekki bókfært. Stjórn bankans ber ábyrgð á að ársreikningurinn sé réttur auk þess sem endurskoðandi, í þessu tilviki KPMG, ber ábyrgð á undirskrift hans. Þeir lögfræðingar sem fréttastofa ræddi við í dag segja að þetta geti fallist undir fjársvik gagnvart almenningi. Með því að ofmeta eignir er verið að hafa áhrif á markaðinn og blekkja fólk til fjárfestinga. Heimildir fréttastofu herma einnig að fjallað sé um þessi mál í skýrslu sem PWC gerði um starfsemi Kaupþings fyrir bankahrunið. Þá hefur málið ekki verið sent frá FME til sérstaks saksóknara.

Í samtali við fréttastofu sagði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, að engin þörf hafi verið á að afskrifa þessi skuldabréf. Black Sunshine hafi verið í eigu sjálfseignarstofnunar þar sem eigið fé var nægt . Skuldabréfin hafi ekki verið í vanskilum og því engin þörf á að afskrifa þau á þessum tímapunkti. Hinsvegar sé óljóst hversu mikið fáist upp í þessi skuldabréf í dag miðað við núverandi stöðu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×