Viðskipti innlent

Mikill munur á skráningu krónunnar erlendis og hérlendis

Þróun gengis krónu gagnvart evru á erlendum mörkuðum hefur verið talsvert önnur en á innlendum markaði síðustu daga.

Þannig fengust 200 kr. fyrir hverja evru í miðlunarkerfi Reuters fyrir viku síðan en nú hljóða tilboð í miðlunarkerfinu upp á 220-225 kr. á evruna, sem er lægsta gengi krónu gagnvart evru frá janúarlokum. Á innlandsmarkaðinum er evran nú skráð á rúmar 146 kr.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að viðskipti voru einnig með mesta móti á þriðjudag samkvæmt gögnum Reuters, en einmitt þá byrjaði krónan að veikjast í vikunni.

Bilið milli gengis krónu á innlendum og erlendum markaði hefur því aukist töluvert undangenga viku, sem bendir til þess að einangrun þessara markaða hvors frá öðrum hafi aukist á tímabilinu og að afar erfitt sé nú um vik að nýta þá möguleika á að hagnast sem til staðar eru vegna ólíks gengis.

Hvað varðar veikingu krónunnar í gær upp á 2,4% segir greiningin að líklegt er að hún tengist tengist væntanlegum vaxtagjalddaga á ríkisbréfaflokki upp á tæplega 71 milljarða kr. að nafnvirði en 7% vaxtagreiðsla af honum er á gjalddaga á þriðjudag í næstu viku.

Hér er því um nærri 5 milljarða kr. greiðslu að ræða sem að verulegu leyti fellur í skaut erlendra eigenda bréfanna, en gjaldeyriskaup vegna vaxtatekna eru leyfileg undir gjaldeyrishöftunum. Ekki er þó víst að hér séu að öllu leyti á ferðinni gjaldeyriskaup vegna greiðslnanna sjálfra, þar sem ákveðnum vandkvæðum er bundið fyrir erlenda fjárfesta að kaupa gjaldeyri fyrr en vaxtagreiðsla er sannanlega komin í þeirra hendur.

Hins vegar kann vel að vera að aðrir þátttakendur á gjaldeyrismarkaði hafi viljað safna gjaldeyri í sarpinn nú vegna ótta við veikingu krónu í kjölfar vaxtagreiðslugjalddagans, til að mynda innflytjendur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×