Viðskipti innlent

Íbúðaverð hefur ekki náð botninum

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Greining Íslandsbanka segir að íbúðaverð hafi ekki enn náði boði. Það sem af árinu, það er frá desember í fyrra til nóvember síðastliðins, hefur verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 10% að nafnvirði miðað við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, að fram kemur í Morgunkorni bankans.

„Enn meiri lækkun hefur verið að raunvirði, eða sem nemur um 18,6%. Þrátt fyrir að vísitala íbúðaverðs sé ekki komin fyrir desembermánuð bendir þetta til að lækkunin að nafnvirði sé nokkuð minni en við höfðum reiknað með í spá okkar um verðþróun á íbúðamarkaði sem birt var í desember í fyrra. Þannig höfðum við gert ráð fyrir að íbúðaverð kæmi til með að lækka um 15% að nafnvirði og um 18% að raunvirði á árinu," segir í Morgunkorninu.

Þó sé ljóst að umhverfið á íbúðamarkaði sé enn erfitt enda sé hagkerfið ennþá í heljargreipum kreppunnar. Bankinn segir að þær forsendur sem nú séu til staðar séu síst til þess fallnar að auka eftirspurn eftir íbúðum og ætla megi að enn sé töluverður þrýstingur til lækkunar íbúðaverðs til staðar.

„Endurspegla væntingar um frekari lækkanir bæði ástand á framboðs- og eftirspurnarhlið markaðarins sem lýst er í umfjölluninni hér að ofan. Opinberar spár um þróun íbúðaverðs hafa gert ráð fyrir að það komi til með að lækka um helming að raunvirði frá því að það náði hámarki í ársbyrjun 2008. Í nóvember hafði íbúðaverð lækkað um 35,4% að raunvirði frá þeim tíma og samkvæmt þeim spám ætti mesta lækkunin að vera komin fram, þó líklega sé botninum ekki náð í þeim efnum,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×