Viðskipti innlent

Sjötta frumkvöðlasetrið opnað í Hafnarfirði

Haldið verður upp á opnun frumkvöðlasetursins Kveikjunnar í Hafnarfirði næstkomandi mánudag en það er sjötta frumkvöðlasetrið sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands opnar eftir efnahagshrunið fyrir ári síðan.

Í tilkynningu segir að Kveikjan sé samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar og Álftaness og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Miklar vonir eru bundnar við samstarf sveitarfélaganna þriggja og Nýsköpunarmiðstöðvar en nú þegar hafa 16 frumkvöðlar komið sér fyrir á setrinu á Strandgötu 11 í Hafnarfirði.

Þar fá þeir aðstöðu, tengslanet og stuðning til að hrinda viðskiptahugmyndunum í framkvæmd undir handleiðslu sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Viðskiptahugmyndirnar sem verið er að vinna að í Kveikjunni eru fjölbreyttar og snúa m.a. að tölvuleikjagerð, útflutningi á íslensku tónverki og afþreyingarefni, og framleiðslu á raföryggisvörum.

Hugmyndirnar eru mislangt á veg komnar, sumar eru á þróunarstigi en einnig eru á setrinu sprotafyrirtæki sem hafa hafið starfsemi. Eitt fyrirtækjanna, Remake Electric, varð í fyrsta sæti í hugmyndasamkeppninni á vegum verkefnisins Start09 6. október síðastliðinn.

106 einstaklingar eru nú með aðstöðu á nýju setrunum sjö og eru margar viðskiptahugmyndir farnar að bera ávöxt. Auk þess hafa tugir einstaklinga fengið aðstöðu og stuðning tímabundið á setrunum og horfið til annarra verka.

Í tilefni af opnun Kveikjunnar verður opið hús kl. 9:00 - 10:30 á Strandgötu 11 á mánudaginn 12. október. Nokkur rými eru enn laus á Kveikjunni og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér aðstöðuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×