Erlent

Varað við ferðum til Vesturheimslanda

Á Taívan gripu menn til þess ráðs að sprauta sótthreinsandi efni yfir svín til að draga úr smitlíkum.
nordicphotos/AFP
Á Taívan gripu menn til þess ráðs að sprauta sótthreinsandi efni yfir svín til að draga úr smitlíkum. nordicphotos/AFP

Að minnsta kosti 73 manns höfðu smitast af svína-flensu í gær, svo staðfest væri. Vitað er um 40 smit í Bandaríkjunum, sex í Kanada og eitt á Spáni. Grunur leikur þó á að smitið hafi borist í mun fleiri.

Verst er ástandið í Mexíkó, þar sem flensan virðist hafa átt upptök sín. Þar er talið að rúmlega 1.600 manns hafi smitast og þar af nærri 150 látist af völdum veirunnar.

Norska dagblaðið Verdens Gang skýrði auk þess frá því á vefsíðum sínum í gær að tveir menn, nýkomnir frá Mexíkó, hafi verið lagðir inn á sjúkrahús í norðanverðum Noregi vegna gruns um svínaflensusmit. Þeir hafi fengið einkenni flensunnar stuttu eftir heimkomuna.

Fjöldi manns hætti við ferðalög til Mexíkó og flugfélög hafa mörg hver ákveðið að innheimta ekki annars hefðbundin gjöld fyrir að afturkalla flugmiða þangað.

Víða um heim var settur upp viðbúnaður á flugvöllum til þess að kanna hvort ferðafólk frá Mexíkó og Norður-Ameríku hafi hugsanlega orðið fyrir smiti. Í Rússlandi, Hong Kong og Taívan gengu stjórnvöld svo langt að segja að ferðafólk frá þessum slóðum yrði sett í sóttkví.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hafði í gær ekki tekið afstöðu til þess hvort hækka ætti viðbúnaðarstig vegna svína-flensunnar úr 3 í 4 eða jafnvel 5. Það fer eftir því hve auðveldlega veiran smitast á milli manna.

Androulla Vassiliou, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, varaði fólk í gær við að ferðast til Vesturheims, en dró síðar aðeins úr orðum sínum: „Ég átti við ráðleggingar til ferðamanna, ekki ferðabann,“ sagði hún.

Eftirlit var einnig hert á landamærum Bandaríkjanna. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði ástæðu til þess að sýna aðgát, en þó væri engin ástæða til að fyllast ofsahræðslu.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×