Viðskipti innlent

Viðskiptum með krónur á aflandsmarkaði fækkar

Frá nýliðnu sumri hefur þeim dögum fækkað sem ekki hefur verið lagt fram annað hvort kaup- eða sölutilboð. Breytingar á genginu hafa í kjölfarið orðið minni og sömuleiðis hefur verðbilið dregist saman.

Hagfræðideild Lanmdsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að eftir styrkingu krónunnar á aflandsmarkaði seint í vor dró umtalsvert úr þessum mun og hélst hann í kringum 30-40 kr. í sumar. Í lok september, við nokkra styrkingu krónunnar á aflandsmarkaði dró úr mismuninum, sem fór minnst niður í rúmar 8 kr., en nú hefur hann aftur aukist og stendur í rúmri 41 kr.

Síðustu viðskipti með íslenskar krónur á aflandsmarkaði fóru fram á genginu 225, það er fyrir hverja evru voru greiddar 225 íslenskar krónur. Eins og áður hefur verið fjallað um í Hagsjá hélst gengi krónunnar fremur stöðugt í sumar, eða frá júní fram í miðjan september. Þá styrkist krónan umtalsvert og fór verð evru á aflandsmarkaði lægst niður í 190 krónur. Frá byrjun októbermánaðar hefur krónan veikst nokkuð.

Viðskipti á aflandsmarkaði eru mjög rýr og oft og iðulega líða margir dagar milli viðskipta með evrur á móti krónum.

Í Hagsjánni segir svo að gengismunur á milli hins opinbera gengis annars vegar og hins vegar aflandsgengis er einn af þeim þáttum sem peningastefnunefnd Seðlabankans fylgist náið með. Eftir því sem munurinn eykst, þeim mun meiri er ávinningurinn á að fara á svig við gjaldeyrishöft og þar með líkurnar á að slíkt sé gert.

Þegar viðskipti fara fram á aflandsmarkaði skilar gjaldeyrir sér ekki til landsins og þar með er minni þrýstingur til styrkingar krónunnar, sem aftur heldur aftur af vaxtalækkunum Seðlabankans. Því má segja að slík viðskipti séu afar óhagstæð fyrir allan almenning og fyrirtæki í landinu, fyrir utan þá fáu sem hagnast af þeim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×