Viðskipti innlent

Vilja láta afturkalla ákvörðun um greiðslustöðvun BG Holding

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Smærri kröfuhafar Baugs krefjast þess að skilanefnd Landsbankans afturkalli ákvörðun sína um að setja BG Holding í greiðslustöðvun.Greiðslustöðvunin hefur úrslitaárhif á að kröfuhafarnir fái rúmlega 50 milljarða króna kröfur sínar á Baug greiddar. Gangi þetta ekki eftir, yrðu afleiðingarnar afdrifaríkar fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Fulltrúar Byrs, VBS fjárfestingarbanka, Straums, SPRON, Sparisjóðabanka Íslands, Íslenskra verðbréfa, Saga Capital, LSR og Gildis funduðu í húsakynnum Byrs í Borgartúninu í dag.

Þessi fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir eiga óöruggar veðkröfur á Baug sem nema 51 milljarði króna. Forsvarsmenn Baugs höfðu áður búið til áætlun, Project Sunrise, sem miðaði að því að greiða kröfuhöfum félagsins að fullu en eftir að skilanefnd Landsbankans fór fram á greiðslustöðvun BG Holding, dótturfélag Baugs í Bretlandi, breyttust forsendur og gildir áætlunin því ekki lengur.

Heimildir fréttastofu herma að kröfuhafarnir hafi á þessum fundi skrifað bréf til skilanefndarinnar þar þess er farið á leit að ákvörðun um gjaldþrotameðferð BG Holding verði afturkölluð. Hagsmunir kröfuhafanna séu verulegir fyrir íslenskt fjármálakerfi í heild sinni. Skilanefnd Landsbankans hafi með þessum aðgerðum tryggt sig umfram skuldbindingar sínar og þar með sett þær kröfur sem smærri fjármálafyrirtæki eiga á Baug í uppnám.

Þar sem Landsbankinn eigi veð í stærstum hluta eigna Baugs og hafi því leiðandi stöðu þegar komi að endurskipulagningu á fjárhag félagsins munu aðgerðir af hálfu skilanefndarinnar hafa úrslitaárhif á endurheimt krafna ótryggðra kröfuhafa. Heimildir fréttastofu herma einnig að kröfuhöfum verði innan skamms kynntar þær tillögur um nýja fjárhagsskipan Baugs sem samþykkt var á stjórnarfundi fyrr í vikunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×