Erlent

Engir friðarsamningar við palestínumenn næstu árin

Óli Tynes skrifar

Utanríkisráðherra Ísraels segir að engir friðarsamningar við palestínumenn séu mögulegir næstu árin.

Hann kveðst munu segja þetta við sérlegan sendifulltrúa Bandaríkjaforseta þegar þeir hittast síðar í dag.

Avigdor Lieberman segir að hann muni benda George Mitchell á að víða í heiminum séu óútkljáð deilumál sem fólk hafi lært að lifa við.

Geyma erfiðu málin

Það þýði þó ekki að það þurfi að vera stöðug átök. Víða hafi fólk tekið þá ákvörðun að hætta að beita valdi, að hætta að fremja hryðjuverk og hætta að æsa til ófriðar gegn hvort öðru.

Það sem sé mögulegt í stöðunni sé að gera langtíma bráðabirgðasamkomulag þar sem erfiðustu málin séu skilin eftir til lausnar síðar.

Jerúsalem er erfið

Þar var utanríkisráðherrann meðal annars að vísa til framtíðar Jerúsalem. Palestínumenn vilja fá austurhluta borgarinnar sem höfuðborg sjálfstæðs ríkis síns.

Ísraelar segja hinsvegar að þeir muni aldrei fallast á að borginni verði skipt á nýjan leik. Annar stór þröskuldur eru landnemabyggðir Ísraela á Vesturbakkanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×