Viðskipti innlent

Um 22.000 fyrirtæki hafa ekki skilað ársreikningum

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Straumur Burðarás og Fáfnir eru meðal þeirra 22.000 fyrirtækja sem ekki hafa skilað ársreikningum til ársreikningaskrár. Listi yfir fyrirtækin hefur verið birtur á vef ríkisskattstjóra.

Í lögum um ársreikninga segir að hlutafélögum og einkahlutafélögum sé skylt að leggja fram ársreikninga sína til opinberrar birtingar. Undanfarin ár hafa mörg félög komist upp með að fylgja lögunum ekki eftir.

Ríkisskattstjóri hefur því ákveðið að framvegis verði aðgengilegir listar á rsk.is yfir þá lögaðila sem ekki hafa sinnt skyldu sinni um að skila ársreikningum til opinberrar birtingar hjá Ársreikningaskrá. Meðal þeirra fyrirtækja sem þar er að finna eru  Baugur Group, Fáfnir, Fengur eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar, Eimskipafélag Íslands, Straumur Burðarás og Byr Sparisjóður.

Raunar er listinn langur því alls hafa um tuttugu og tvö þúsund fyrirtæki ekki sinnt þessari skyldu sinni. Sum hafa meira að segja trassað það að skila inn ársreikningum í 13 ár, þeirra á meðal Decode. í lögum um ársreikninga stendur að séu skil á ársreikningum til opinberrar birtingar vanrækt teljist sú háttsemi vera meiri háttar brot gegn lögunum.

Ársreikningaskrá er heimilt að leggja sektir á félögin sem nema allt að 500.000 krónum. Sektin rennur í ríkissjóð og er aðfararhæf.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×