Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar heldur áfram að lækka

Raungengi krónu er þriðjungi undir langtímameðaltali sínu, hvort sem viðmiðið er verðlag eða laun. Í ágústmánuði lækkaði raungengi krónu um 1% frá fyrri mánuði á mælikvarða hlutfallslegs verðlags samkvæmt nýlega birtum tölum frá Seðlabankanum.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að aðeins einu sinni hefur raungengið mælst lægra það sem af er öldinni, en það var í nóvember á síðasta ári. Raunar er raungengið svo langt fyrir neðan það sem lægst hefur gert á ársgrundvelli undanfarin 95 ár að tæpast hefur það verið jafn lágt áður á því tímabili nema um afar skamma hríð.



Lágt raungengi um þessar mundir er blendin blessun. Það er afleiðing gjaldeyriskreppu í kjölfar mikillar erlendrar skuldasöfnunar. Raunar verður að taka raungengisútreikningum Seðlabanka með þeim fyrirvara að gengi krónu ræðst ekki á frjálsum markaði heldur er það skilyrt af gjaldeyrishöftum. Kaupmáttur Íslendinga hefur minnkað mikið í alþjóðlegu tilliti í kjölfar hruns krónunnar á síðasta ári og áhrifin á efnahagsreikning fyrirtækja og heimila verið afar slæm vegna þess hve algeng verð- og gengistryggð lán hafa verið á síðustu árum.

 

Á hinn bóginn bætir hið lága raungengi samkeppnisstöðu útflutningsgreina, sem og þeim sem keppa við innfluttar vörur og þjónustu á innlendum markaði. Veik króna getur þannig flýtt fyrir bata efnahagslífsins á komandi misserum.



Jákvæð áhrif gengisfallsins á vöruútflutning hafa raunar látið á sér standa, enda eru stærstu útflutningsgreinar okkar, sjávarafurðir og ál, bæði bundnar í báða skó hvað framleiðslugetu varðar og varðar að verulegu leyti fyrir gengissveiflum. Áhrifin á innflutning hafa verið mun meira afgerandi, en vöruinnflutningur dróst saman um ríflega 40% á fyrri hluta ársins frá sama tímabili í fyrra.

 

Þar er raunar ekki krónan ein að verki heldur einnig sú staðreynd að þær neysluvörur sem heimilin spara við sig þegar skóinn kreppir eru innfluttar í mun meiri mæli en nauðsynjavörur. Staðkvæmd milli innlendra og innfluttra neysluvara er reyndar með minnsta móti á Íslandi þegar matvöru og öðrum dagvörum sleppir.

 

Auk þess hefur dregið mjög mikið úr innflutningi fjárfestingarvara vegna hagsveiflunnar og sú þróun er að verulegu leyti ótengd þróun krónunnar. Áhrifin á útflutning þjónustu, sér í lagi ferðamennsku, hafa verið mun snarari þótt heimskreppan hafi slegið á ferðamannastrauminn hingað til lands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×