Skoðun

Hver laug að Flosa?

Benedikt Guðmundsson skrifar

Vegur sannleikans getur verið vandrataður. Það er að sannast rækilega á Flosa Eiríkssyni bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi. Hann, ásamt þeim Jóni Júlíussyni flokksbróðir sínum og Ómari Stefánssyni oddvita framsóknarmanna, hefur eins og kunnugt er bent fingri á Gunnar I. Birgisson og þáverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og ásakað hann um að hafa logið að þeim um málefni LSK. Nú á dögunum ítrekaði Flosi við fjölmiðla að hann sæi ekki ástæðu til að víkja sæti meðan hann sætti lögreglurannsókn af því að það hefði verið logið að sér. Þetta er athyglisverð afstaða. Gunnar I. Birgisson vék strax úr sæti bæjarfulltrúa eftir að í ljós kom að mál LSK sætti lögreglurannsókn. Hinir þrír sitja sem fastast.

Þá vaknar spurningin, hver laug að Flosa og hverju? Það hefur komið fram m. a. í ítarlegri grein í Morgunblaðinu 27. júní að þáverandi framkvæmdastjóri LSK sendi öllum stjórnarmönnum pósta um stöðu mála. Í póstunum kom skírt fram að sjóðurinn hafði aukið lán til Kópavogsbæjar nokkrum dögum eftir að stöðuyfirlit var sent FME og jafnframt sagt að sú upphæð hefði ekki komið fram á því yfirliti. Flosi og Ómar tóku virkan þátt í póstsamskiptunum og geta ekki skýlt sér bak við að hafa ekki vitað um þau eða þekkt staðreyndir málsins. Flosi og félagar hafa margítrekað lýst yfir að þetta hafi verið dulið fyrir þeim og, svo notuð séu orð Flosa, logið að þeim. Þetta stenst einfaldlega ekki skoðun, þeir vissu allt um málið.

Ef Flosi hefði sagt að hann hefði ekki skilið það sem fram fór í stjórn LSK, og sagt að sér þætti óréttlátt að hann tæki ábyrgð á einhverju sem hann fattaði ekkert í, hefði með góðum vilja mátt sjá gegnum fingur við hann. Það hefði þó verið langsótt í ljósi þess að Flosi starfar hjá virtri endurskoðunarskrifstofu og ætti að hafa góðan skilning á svona málefnum.

En það gerði Flosi ekki. Hann sakaði aðra um að hafa logið að sér og hann þyrfti því ekki að stíga til hliðar. Búið er að sýna fram á að þeir félagar fengu allar upplýsingar og vissu klárlega um stöðu mála. Það er því ekki ósanngjörn krafa þegar Flosi stagast þráfaldlega á því að logið hafi verið að honum að hann sýni fram á með óyggjandi hætti að eitthvað sé á bak við þær fullyrðingar annað en ósk um að fría sjálfan sig ábyrgð.

Flosi, hverju var logið að þér og hver laug því?










Skoðun

Sjá meira


×