Viðskipti innlent

Veltan á fasteignmarkaðinum minnkaði um 78% í desember

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í desember 2008 var 157. Þegar desember 2008 er borinn saman við desember 2007 fækkar kaupsamningum um 71% og velta minnkar um 77,8%.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fasteignamatsins. Heildarvelta í desember nam 4,3 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 27,6 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 3,2 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 0,9 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 0,2 milljörðum króna.

Fjöldi makaskiptasamninga um íbúðarhúsnæði sem þinglýst var á höfuðborgarsvæðinu í desember 2008 var 49. Á sama tíma var 1 kaupsamningur þar sem hluti greiðslu var lausafé. Með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning um fasteign þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Þegar desember 2008 er borinn saman við nóvember 2008 fækkar kaupsamningum um 1,3% og velta minnkar um 8%. Í nóvember 2008 var þinglýst 159 kaupsamningum, velta nam 4,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 29,6 milljónir króna.

Þegar desember 2008 er borinn saman við desember 2007 fækkar kaupsamningum um 71% og velta minnkar um 77,8%. Í desember 2007 var þinglýst 542 kaupsamningum, velta nam 19,5 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 36 milljónir króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×