Erlent

Al-Kaida hvetur til árása á Kína

Óli Tynes skrifar
Al-Kaida vill hjóla í kínverska herinn.
Al-Kaida vill hjóla í kínverska herinn.

Í myndbandi á vefsíðu islamista varaði Abu Yahya al-Libi kínversk stjórnvöld við því að þeirra biðu sömu örlög og Sovétríkjanna sem liðuðust í sundur fyrir tveim áratugum.

-Ríki hinna vantrúuðu mun falla. Þess bíða sömu örlög og rússneska bjarnarins, segir meðal annars í ávarpinu.

Sovétríkin gerðu innrás í Afganistan árið 1979 til þess að aðstoða marxista stjórnina þar í stríði við Islamista.

Eftir tíu ára blóðugan skæruhernað hrökkluðust sovésku herirnir úr landi. Al-Kaida hryðjuverkasamtökin voru mynduð úr hópum stríðsmanna sem börðust gegn Sovétmönnum.

Ígúrar í Kína eru múslimar sem búa einkum í Xinjiang héraði. Islamistar kalla héraðið Austur-Turkistan.

Um tvöhundruð manns féllu í blóðugum átökum í Xinjiang í júlí síðastliðnum milli Ígúra og Han kínverja sem eru í yfirgnæfandi meirihluta í Kína.

Libi sagði í ávarpi sínu að eina leiðin til þess að létta kínverskri kúgun af Ígúrum væri að þeir gripu til vopna gegn valdstjórninni.

Jafnframt væri það skylda allra múslima að aðstoða særða bræður sína í Austur-Turkistan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×