Lífið

Bíllinn besti staðurinn fyrir þjófa að mati lögreglu

Biðlar til tölvuþrjóts
Biðlar til tölvuþrjóts

„Þetta er Macbook Pro. Öll tónlistin mín er í henni og hún nýtist engum öðrum en mér. Svo er hún líka læst þannig að þeir komast ekkert inní hana,“ segir Jón Atli Jónsson, plötusnúður og tónlistarmaður.

Jón Atli er kominn í hóp lánlausra Íslendinga sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþjófum en tölvunni hans var stolið úr bíl hans, af gerðinni Volswagen Golf, sem stóð mannlaus í Nauthólsvík. „Þeir brutu rúðuna og hirtu hana. Þetta er öll tónlistin sem ég nota sem plötusnúðurinn Sexylaser, en hann er ekki mikið „sexy“ núna, án tónlistarinnar.“ Jón Atli hefur kært þjófnaðinn til lögreglunnar og var búinn að hringja í tryggingarfélagið sitt. „Ég er hins vegar alveg reiðubúinn til að greiða fundarlaun ef tölvan skyldi verða á vegi einhvers sem vildi koma henni í hendurnar á réttmætum eiganda.“ Mikið hefur skrifað og fjallað um innbrotafarald á höfuðborgarsvæðinu síðan að bankakreppan reið yfir.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík, sagðist ekki hafa tölurnar á hreinu en viðurkenndi að auðgunarbrotum væri alltaf að fjölga. „Þetta kemur alveg skýrt fram í mánaðarlegri tölfræði frá okkur. Við viljum bara brýna fyrir fólki, enn og aftur, að skilja ekki verðmæti eftir bílum því sá staður er sá einfaldasti fyrir þjófa að brjótast inn í, þar er bara ein rúða sem skilur á milli,“ segir Stefán og bætir því við að honum þyki það undarlegt hversu auðvelt það er fyrir þjófana að koma góssinu í verð.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að skoða; það virðist vera þýfismarkaður þar sem menn geta keypt illa fengna hluti á ótrúlega lágu verði.“

Undir þetta tekur Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fólk eigi að sýna meiri aðgæslu þegar það yfirgefur bílana sína, það eigi alls ekki að skilja eftir verðmæti sem auðvelt er að koma í verð eins og síma, tölvur og tónhlöður. „Innbrotum og þjófnuðum hefur fjölgað töluvert frá því um seinnipart síðasta árs og það hefur haldist nokkur stöðugleiki í þeim fjölda. Hins vegar hefur dregið aðeins úr þessu nú í sumar. En það er talsvert meira um innbrot núna en á sama tíma fyrir ári.“ Friðrik segir lögregluna alltaf vera leggja hald á góss, það finnist stundum á víðavangi eða í húsleitum í tengslum við önnur mál, fórnarlömb þjófa skyldu þó ekki hafa of miklar væntingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.