Viðskipti innlent

Reynt að leysa jöklabréfavandann

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig leysa eigi jöklabréfavandann. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett sig upp á móti þeim hugmyndum.

Á opnum fundi viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku staðfesti Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé tortrygginn á þær leiðir sem ræddar og skoðaðar hafa verið til að leysa úr jöklabréfavandanum.

Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lagði fram fyrirspurn um hvort það væri rétt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji sig upp á móti þeim lausnum sem hafa verið í umræðunni.

„Lausnirnar hljóta allar með einhverjum hætti að snúast um það að skipta út óþolinmóðu fjármagni sem vill fara úr landi fyrir þolinmótt fjármagn og það eru ýmsar leiðir til þess. Rétt hjá þingmanninum að AGS hefur verið nokkuð tortrygginn á þær leiðir sem við höfum verið að skoða," segir í svari Gylfa.

Í samtali við fréttastofu sagði Gylfi að ýmsir aðilar, bæði einkaaðilar og Seðlabankinn, hafi velt upp hugsanlegum lausnum á vandanum. Ein hugmynd sé sú að vera með einhvers konar sölu, væntanlega í gegnum uppboð, á skuldabréfunum sem gengi þannig fyrir sig að þau væru keypt með krónum og svo gætu menn skipt þeim út fyrir evrur á ákveðnum gjalddaga í framtíðinni og farið þannig með fjármunina úr landi. Vandinn við þessa leið sé hins vegar að ekki er hægt að framkvæma þetta í miklum mæli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×