Erlent

Seld strax eftir fæðingu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eins árs gömul stúlka sem talið er að læknar hafi selt strax eftir fæðingu er nú komin aftur til móður sinnar í Mexíkóborg. Læknarnir sögðu móðurinni að stúlkan hefði látist skömmu eftir fæðingu.

Móðirin var í skýjunum eftir að hún fékk dótturina aftur til sín í síðustu viku. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem hún hélt á dóttur sinni því henni var meinað að sjá hana strax eftir fæðingu. Stúlkan var tekin með keisara fyrir rúmu ári á spítala í Mexíkóborg. Læknar fóru strax með hana út af fæðingarstofunni. Þeir sögðu móðurinni síðar að senda hefði þurft stúlkuna á annan spítala en þar hefði hún látist og líkið verði brennt.

Þegar nokkuð var liðið frá fæðingunni fékk konan tölvupóst sem talið er að komið hafi frá syni eigenda spítalans. Í póstinum var fullyrt að stúlkan hefði verið seld og væri á lífi. Í ljós kom síðar að stúlkan hafði verið seld sálfræðingi á hundrað og fimmtíu þúsund krónur. Hún var svo færð móður sinni eftir að gerðar höfðu verið rannsóknir til að ganga úr skugga um að hún væri í raun dóttir hennar.

Þrír læknar, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður spítalans eru í haldi lögreglunnar í Mexíkó vegna málsins. Konan sem keypti stúlkuna er jafnframt í haldi lögreglu.

Spítalanum hefur verið lokað í kjölfar atviksins og verið er að rannsaka hvort fleiri ungabörnum hafi verið rænt þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×